Að mati íþróttadeildar Vísis stóðu þær Glódís Perla Viggósdóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir upp úr í kvöld.
Sveindís skapaði mesta hættu fyrir íslenska liðið fram á við með sínum ógnarhraða og tækni, en Glódís stóð í ströngu í vörninni þar sem þær Ingibjörg Sigurðardóttir reyndu að hafa hemil á markamaskínunni Vivianne Miedema.
Guðný Árnadóttir þreytti frumraun sína í byrjunarliði í mótsleik fyrir landsliðið og komst vel frá sínu. Innkoma hennar í stöðu hægri bakvarðar var það sem kom einna helst á óvart í uppstillingu Þorsteins Halldórssonar sem stýrði Íslandi í fyrsta sinn í mótsleik í kvöld eftir að hafa tekið við landsliðinu í byrjun árs.
Hér að neðan má sjá einkunnir íslensku leikmannanna gegn Hollandi í kvöld:
Sandra Sigurðardóttir, markvörður 6
Nokkuð örugg og gat lítið gert í mörkunum tveimur. Varði stundum vel í seinni hálfleiknum og verður ekki sökuð um tapið.
Guðný Árnadóttir, hægri bakvörður 6
Miðvörðurinn í nýju hlutverki í fyrsta alvöru byrjunarliðsleik sínum í bláu treyjunni. Höndlaði hraða Lieke Martens vel en fór stundum ansi langt úr stöðu, væntanlega samkvæmt dagsskipun. Dugleg að koma fram en fyrirgjafirnar ekki nógu góðar.
Glódís Perla Viggósdóttir, miðvörður 7
Frábær gegn Miedema og fylgdi henni eftir eins og skugginn þegar það var á hennar ábyrgð. Skilaði boltanum að vanda afar vel frá sér og var örugg í því sem hún gerði.
Ingibjörg Sigurðardóttir, miðvörður 5
Algjör nagli í varnarleiknum lengst af líkt og hún er vön en þarf að vanda betur sendingarnar út úr vörninni. Of langt frá Van de Donk í fyrra markinu og bakkaði stundum fullmikið frá andstæðingnum.
Hallbera Guðný Gísladóttir, vinstri bakvörður 5
Stóð ágætlega fyrir sínu varnarlega en hafði lítið fram að færa framar á vellinum. Átti arfaslaka aukaspyrnu af fínum stað í fyrri hálfleik.
Sveindís Jane Jónsdóttir, hægri vængmaður 7
Langhættulegasti leikmaður íslenska liðsins. Mikið leitað til hennar og hún lét vinstri bakverðinum Janssen líða illa. Vantaði örlítið upp á að spyrnurnar inn í teig skiluðu mörkum en ekki mikið af liðsfélögum þar.
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, miðjumaður 6
Mesti orkubolti vallarins í fyrri hálfleik. Fyrirliðinn hljóp um allan völl og lét finna virkilega vel fyrir sér. Dró aðeins af henni í seinni hálfleiknum en varðist allan tímann vel.
Alexandra Jóhannsdóttir, miðjumaður 4
Skilaði sínu ekki alveg nægilega vel sem aftasti miðjumaður og lenti stundum á eftir Hollendingunum en lét finna fyrir sér.
Dagný Brynjarsdóttir, miðjumaður 5
Hefur oft verið meira áberandi og náði ekki að komast mikið í boltann. Stóð fyrir sínu varnarlega og var vel hreyfanleg um allan völl. Mikilvæg í föstum leikatriðum og komst í fínt færi í lok leiks.
Agla María Albertsdóttir, vinstri vængmaður 6
Ógnaði með hraða sínum og góðum sendingum kanta á milli en komst ekki alveg nógu langt áleiðis. Bjó sér til gott færi undir lokin og var nálægt því að minnka muninn.
Berglind Björg Þorvaldsdóttir, framherji 4
Eðli leiksins samkvæmt ekki mjög áberandi, gegn andstæðingi sem var meira með boltann. Gerði hins vegar ágætlega í að taka við sendingum fram miðjan völlinn og dreifa boltanum.
Varamenn:
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir kom inn á fyrir Alexöndru á 63. mínútu 6
Kom sér strax í ágætt færi en var svo mikið í eltingarleik.
Svava Rós Guðmundsdóttir kom inn á fyrir Berglindi á 63. mínútu 5
Tók við af Berglindi á toppnum og hljóp mikið en náði lítið að skapa.
Amanda Jacobsen Andradóttir kom inn á fyrir Gunnhildi Yrsu á 90.+1 mínútu
Spilaði of stutt til að fá einkunn.
Karitas Tómasdóttir kom inn á fyrir Sveindísi á 90.+1 mínútu
Spilaði of stutt til að fá einkunn.