Lífið

Hvernig getur þú bætt mataræðið þitt?

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Sara Snædís þjálfar konur um allan heim í gegnum vefsíðu sína WithSara.com
Sara Snædís þjálfar konur um allan heim í gegnum vefsíðu sína WithSara.com www.withsara.com

„Í gegnum tíðina hafa konur deilt með mér að þær langi til þess að bæta mataræðið sitt. Þær hafa spurt mig hvernig þær geti bætt það án þess að fara á strangt mataræði,“ segir þjálfarinn Sara Snædís Ólafsdóttir.

„Mín persónulega skoðun er sú að strangt mataræði sé yfirleitt ekki sjálfbært og geti oft lagst þungt á fólk. Ég mæli því frekar með að breyta nálguninni gagnvart mataræðinu og komast að því af hverju þig langar til þess að bæta mataræðið? Með því að spyrja þeirrar spurningar er auðveldara að ákveða hver nálgunin þín verður,“ útskýrir Sara. 

Hún deilir hér nokkrum góðum ráðum með lesendum. 

Sem betur fer erum við öll ólík með ólíkar þarfir. Hver og einn þarf að hlusta á sinn líkama og finna heilbrigt mataræði sem passar þeirra lífsstíl, er sjálfbært og veitir ánægju.

Finndu þína ástæðu

Þegar þú ert með skýra ástæðu fyrir einhverju sem þú gerir, er auðveldara að ná árangri. Þar af leiðandi, finndu þína ástæðu, og hún er þitt fyrsta skref í átt að heilbrigðara mataræði. Kannski viltu verða heilbrigðari útgáfa af sjálfri þér, þig vantar meiri orku yfir daginn, þú vilt takmarka óholla fæðu eða vilt einfaldlega líða betur. Algeng ástæða þess að vilja breyta mataræðinu er að léttast. Þegar eina markmiðið er að léttast þá geta aðferðirnar orðið ýktar eða óraunhæfar. En sem betur eru aðrar heilbrigðari leiðir til þess að breyta mataræðinu sem munu láta þér líða betur líkamlega og andlega.

Matur er orkugjafi

Það sem við borðum hefur áhrif á heilsuna og orkuna okkar. Þess vegna er mikilvægt að byrja að líta á mat sem orkugjafa og hafa í huga að gott mataræði gefur okkur mikla og góða orku. Slæmt mataræði inniheldur ekki þá næringu sem við þurfum á að halda en getur oft gefið okkur tímabundna orku. Matur sem er næringarríkur mun ekki bara hafa jákvæð áhrif á okkur eftir máltíðina heldur einnig til lengri tíma. Með hollum mat erum við að stuðla að heilsusamlegra lífi til lengra tíma litið líka.

Nærðu líkamann þinn með hreinum mat

Mikilvægt er að huga vel að hreinu mataræði sem inniheldur lítið af unnum matvörum, grænmetisolíum og sykri. Því færri innihaldsefni, því betra. Hreint mataræði sem inniheldur meira af grænmeti, baunum, hnetum, jurtum og ef þú kýst að borða kjöt þá skaltu velja óunnar og vandaðar kjötvörur. Taktu meðvitaðar og skynsamlegar ákvarðanir varðandi þína matarneyslu og leggðu upp úr því að næra líkamann með hollum og næringarríkum mat. Afleiðingar þess munu vera aukin orka, bætt andleg heilsa og heilbrigðari líkami.

Finndu þitt jafnvægi

Eins og með allt annað í lífinu, þurfum við að vera raunsæ og finna jafnvægi í ákvörðunum okkar. Stórtækilegar breytingar á einu bretti eru oft yfirþyrmandi og gætu leitt til þess að þú gefist upp. Að efast um sjálfan sig er líka gildra sem auðvelt er að falla í þannig að þetta snýst líka um viljastyrk og trú á að þér séu allir vegir færir. Partur af því að hrista upp í hlutunum er að eiga slæma daga í bland við þá góðu. Þegar slæmu dagarnir koma þá er gott að staldra við og skoða hvað olli því að dagurinn fór eins og hann fór, læra af því og sjá hvað hægt sé að gera til að koma í veg fyrir að það endurtaki sig. Að læra af mistökum er alveg jafn mikilvægt og að ná árangri. Það er hluti af ferðalaginu og mun eingöngu styrkja þig.

Sara Snædís mun reglulega vera með pistla hér á Vísi og einnig er hægt að fylgjast með henni á Instagram þar sem hún er dugleg að deila hugmyndum, innblæstri og góðum ráðum. 


Tengdar fréttir

Skorar á uppteknar konur að setja sjálfsrækt í forgang í september

Þjálfarinn Sara Snædís segir mikilvægt að konur setji sjálfa sig í forgang. Sara þjálfar þúsundir kvenna í gegnum fjarþjálfun og segir að markmiðið sé að hjálpa konum að finna tíma til þess að huga að sjálfum sér í formi hreyfingu og heilbrigðs lífsstíls.

Hjálpar hundruðum íslenskra kvenna að æfa heima í stofu

Sara Snædís Ólafsdóttir byrjaði með fjarþjálfun í kórónuveirufaraldrinum. Hún þjálfaði fyrst fjölskyldu og vini en nú horfa konur í yfir 30 löndum á kennslumyndböndin. Á meðal viðskiptavina Söru eru hundruð kvenna frá Íslandi, sem velja að æfa heima hjá sér. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.