Það er útlit fyrir allhvassan vind og skúri í Laugardalnum í kvöld þegar flautað verður til leiks í þessum fyrsta leik Íslands í nýrri undankeppni HM. Evrópumeistarar Hollands mæta hungraðir í sigur eftir óvænt 1-1 jafntefli við Tékkland á föstudaginn.
Ísland er með sitt sterkasta lið að mestu leyti ef undan er skilin sú staðreynd að Sara Björk Gunnarsdóttir er í barneignaleyfi og þær Elín Metta Jensen og Hlín Eiríksdóttir meiddar.
Vísir veltir í dag upp mögulegu byrjunarliði í leiknum sem hefst klukkan 18.45, og telur að það muni líta svona út:
Ísland (4-3-3): Sandra Sigurðardóttir – Ingibjörg Sigurðardóttir, Glódís Perla Viggósdóttir, Sif Atladóttir, Hallbera Guðný Gísladóttir – Alexandra Jóhannsdóttir, Dagný Brynjarsdóttir, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir – Sveindís Jane Jónsdóttir, Berglind Björg Þorvaldsdóttir, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir.

Mark: Miðað við orð landsliðsþjálfarans má ætla að Sandra byrji í markinu eftir gott tímabil með Íslandsmeisturum Vals. Hún er langreynslumesti markvörður hópsins en hin 18 ára Cecilía Rán Rúnarsdóttir hefur verið að gera sig gildandi í sænsku úrvalsdeildinni og var í úrvalsliði síðustu umferðar.
Vörn: Elísa Viðarsdóttir er eini eiginlegi hægri bakvörðurinn í hópnum en nú þegar Sif Atladóttir er mætt aftur eftir barneignir, og að spila vel með Kristianstad í Svíþjóð, tippum við á að Sif komi inn í miðja vörnina og að Ingibjörg fari í stöðu hægri bakvarðar.
Guðný Árnadóttir, sem er á toppi ítölsku deildarinnar með AC Milan, gæti einnig leyst hlutverk hægri bakvarðar og þær Glódís og Ingibjörg áfram verið miðvarðapar liðsins. Hallbera eða Harvard-neminn Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir byrja í stöðu vinstri bakvarðar.

Miðja: Alexandra hefur komið inn á í fyrstu þremur leikjum Frankfurt á tímabilinu en liðið hefur unnið þá alla og er í toppbaráttunni í Þýskalandi. Hún verður væntanlega öftust á miðjunni með reynsluboltana Dagnýju Brynjarsdóttur og Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur þar fyrir framan.
Gunnhildur Yrsa er fastamaður í einu besta liði Bandaríkjanna, Orlando Pride, og Dagný lék allan leikinn fyrir West Ham í 1-1 jafntefli gegn Aston Villa í síðustu umferð í ensku úrvalsdeildinni.
Sókn: Agla María Albertsdóttir gæti hæglega verið í byrjunarliðinu eftir frábært tímabil með Breiðabliki, og það er spurning hvort að hin 17 ára Amanda Andradóttir fái sínar fyrstu mínútur með A-landsliðinu.
Elín Metta er ekki til taks vegna meiðsla en ætla má að Berglind Björg Þorvaldsdóttir, sem nú leikur með Hammarby í Svíþjóð, fái tækifæri á toppnum.
Sveindís Jane Jónsdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir verða líklega á köntunum en Sveindís skoraði mark síðustu umferðar í sænsku úrvalsdeildinni með glæsilegum hætti á meðan að Karólína á eftir að spila sínar fyrstu mínútur með stórliði Bayern München á þessu tímabili.