„Hér eru góðgerðarsamtök sem heita 1881 sem leiðir svo af sér verkefnið Gefðu fimmu,“ segir Hálfdán.
Svanhildur vildi stofna góðgerðarsamtök og leitaði til Hálfdáns. Hún, eins og aðrir fjárfestar og stórfyrirtæki, fær reglulega beiðnir um alls konar styrki. Þó svo að vel sé oft veitt er oft erfitt að sjá í hvað peningarnir fara. Svanhildi fannst því ráð að fara aðra leið og stofna góðgerðarsamtök að erlendri fyrirmynd, þar sem margir koma að og leggjast á eitt.
„Mér fannst þetta óttalega máttlaust stundum. Þegar ég ein var að styrkja eitthvað og það varð að einhverju og svo þurfti aftur eitthvað örfáum mánuðum síðar,“ segir Svanhildur. Hún vildi gera eitthvað aðeins meira úr söfnunum og þetta varð útkoman.
Um er að ræða velgjörðarfélag sem vil stuðla að auknu jafnrétti og jöfnum tækifærum, þá sérstaklega barna, óháð fjárhæð og félagslegum bakgrunni. Félagið er óhagnaðardrifið og ágóðanum öllum úthlutað til verkefna, einstaklinga eða hópa. Fyrsta úthlutun sjósins mun renna til Rjóðurs, hjúkrunar, hvíldar- og endurhæfingardeild fyrir langveik börn.

Guðdómleg hvíld fyrir foreldra
Sindri Sindrason kynnti sér verkefnið betur og ræddi meðal annars við foreldra. Innslagið má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.
„Án Rjóðsins hefðum við ekki getað sinnt hinu barninu okkar og þó svo erfitt sé að senda langveikt barn frá sér tímabundið, hefur þetta bjargað okkur,“ segir Anna María Emilsdóttir. Hún hefur nýtt sér þjónustu Rjóðursins fyrir dóttur sína frá níu mánaða aldri.
„Hún fæðist heilbrigð og átta klukkustunda gömul fær hún sinn fyrsta stóra krampa og leggst inn á Vökudeild. Í ellefu ár vorum við alltaf í rannsóknum að leita að því hvað væri að. Hún er greind með genagalla sem heitir SLC13A5 og er mjög sjaldgæfur.“
Anna María segir að Rjóðrið hafi verið guðdómleg hvíld fyrir foreldrana og systkini stúlkunnar. Stúlkan fer í Rjóðrið í eina viku í mánuði.
„Við getum sofið róleg.“