Ólafur og Guðmundur verða á hliðarlínunni á Anfield í kvöld í beinni útsendingu frá Meistaradeild Evrópu á Stöð 2 Sport. Útsendingin hefst klukkan 18.30 og hálftíma síðar verður flautað til leiks á Anfield.
Ólafur kvaðst eiga von á „kraftmiklum leik“ frá hendi Liverpool-manna sem hann hefur beðið spenntur eftir að berja augum á Anfield. Spjall þeirra Guðmundar í lestinni í dag má sjá hér að neðan.
„Það eru margir stuðningsmenn Liverpool svekktir yfir því að það hafi ekki verið náð í neina styrkingu. Þetta er sama lið og við sáum á síðustu leiktíð, fyrir utan það að þeir hafa misst Wijnaldum,“ benti Guðmundur á.
„Það er alltaf spurning með þetta að ná í nýtt, „styrkja“ og „gera meira“. Auðvitað gerir það gott stundum en svo má líka spyrja sig; Thiago, hvað ætlar hann að gera í ár? Hann kom í fyrra og var ekkert sérstakur, en mjög góður um helgina. Hann er auðvitað mjög góður í fótbolta en þarf kannski að venjast þessari deild og hraða,“ sagði Ólafur og bætti við að koma þyrfti aftur liðinu í gang sem varð Englands- og Evrópumeistari:
„Ég held að þetta snúist svolítið um að kveikja aftur í Liverpool. Van Dijk kemur aftur núna og mér finnst Liverpool með mjög flott lið, og kannski er allt í lagi að þeir séu ekki að kaupa einhvern haug af mönnum.“
Leikir dagsins í Meistaradeild Evrópu:
- 16.35: Sheriff v Shaktar (Sport 3)
- 16.40: Besiktas v Dortmund (Viaplay)
- 18.30: Meistaradeildarupphitun (Sport 2)
- 18.50: Liverpool v AC Milan (Sport 2)
- 18.50: Man. City v Leipzig (Sport 3)
- 18.50: Atletico v Porto (Sport 4)
- 18.55: Inter v Real Madrid (Viaplay)
- 18.55: Sporting v Ajax (Viaplay)
- 18.55: Club Brugge v PSG (Viaplay)
- 21.00: Meistaradeildarmörkin (Stöð 2 Sport 2)