Á dögunum spurðu Makamál lesendur Vísis hvort að það væri í lagi að slá sér upp með fleiri en einum í einu og rúmlega þrjú þúsund manns svöruðu könnuninni.
Hér áður fyrr var ekki mikið um það að fólk væri að hittast á hversdagslegum stefnumótum, ef svo má að orði komast. En með tilkomu samfélagsmiðla og stefnumótaappa er miklu meira um það að ókunnugt fólk sé farið að mæla sér mót á stefnumótum.
Hvenær er alvara í spilunum og hvenær ekki?
Það mætti kannski segja að í dag væri aðeins meiri hraði í stefnumótamenningunni en áður og radarinn vissulega stærri.
En hvernig er það þá með lögmálin, hafa þau breyst? Er þá kannski í lagi að vera að hitta nokkrar manneskjur í einu, svona til að komast yfir allt þetta úrval?
Jón í kaffibolla í miðvikudegi og Gunna í bíó á laugardagskvöldi?
Eins og sjá má á niðurstöðunum hér fyrir neðan þá segir rúmlega helmingur lesenda að það sé í lagi að vera að slá sér upp (vera að deita) með fleiri en einum í einu, þar til einhver alvara er komin í spilin. Þar höfum við það.
Samkvæmt þessu mætti samt ætla að lögmál stefnumótamenningarinnar á Íslandi sé aðeins að breytast, þó svo að sumir haldi því fram að við Íslendingar séum aftarlega á merinni í þessum efnum.
Könnunin var kynjaskipt að þessu sinni en athygli vakti að nær enginn munur var á svörum kynjanna.
Niðurstöður*
Konur:
Já, þar til einhver alvara er komin í spilin - 55%
Er ekki viss - 17%
Nei, aldrei - 28%
Karlar:
Já, þar til einhver alvara er komin í spilin - 53%
Er ekki viss - 17%
Nei, aldrei - 30%
*Tekið skal fram að niðurstöður byggjast eingöngu á svörum lesenda Vísis og því ekki hægt að alhæfa um niðurstöður. Kannanir Makamála eru ætlaðar til skemmtunar og til að vekja umræðu og athygli á ýmsum málefnum.