Riot Games, sem framleiðir leikinn, hélt næst stærsta mót ársins í League of Legends hér á landi fyrr í vor. Mótið sem ber nafnið Mid Season Invitational, eða MSI, fór fram í Laugardalshöll og gekk prýðilega, þrátt fyrir strangar sóttvarnarreglur.
Heimsmeistaramótið í League of Legends er stærsta mót ársins í leiknum, og að öllum líkindum stærsta tölvuleikjamót heims þegar kemur að áhorfi.
Riot Games hafa sýnt fram á það að þeir geta haldið jafn stór mót og heimsmeistaramótið í miðjum heimsfaraldri, en þegar mótið var haldið í sóttvarnarbúbblu í Kína í fyrra greindust engin smit meðal þátttakenda eða skipuleggjenda.
Í aðdraganda MSI var John Needham, yfirmaður rafíþrótta hjá Riot Games, spurður afhverju Ísland hefði orðið fyrir valinu. Hann sagði meðal annars að Ísland hefði staðið sig best af þeim löndum sem komu til greina varðandi kórónaveirufaraldurinn.
„Reykjavík var valin eftir miklar vangaveltur þar sem við einblíndum á kórónaveriufaraldurinn, ferðalög og fleira. Ísland var það land sem stóð sig lang best varðandi kórónaveirufaraldurinn af þeim löndum sem komu til greina,“ sagði Needham.
Ekki er þó víst hvort að Ísland verði eina landið sem mun halda viðburði tengda mótinu og ekki hefur verið gefið út hvort að áhorfendur verða leyfðir eða ekki. Þá liggur nákvæm dagsetning ekki heldur fyrir, en á næstu dögum verður tilkynnt um hvar mótið verður haldið.