Á Facebook-síðu staðarins má sjá upptökur af Ingólfi spila á gítar og syngja á staðnum, við nokkuð góðar viðtökur gesta. Af lengd upptakanna að dæma spilaði Ingólfur í um tvo klukkutíma. Fyrr í vikunni greindi Hringbraut frá því að staðurinn hefði auglýst að í kvöld yrðu tónleikar með Ingó, en síðan eytt auglýsingunni.
Nokkuð hefur verið fjallað um Ingólf að undanförnu en Þjóðhátíðarnefnd ÍBV, sem fer með skipulagningu Þjóðhátíðar í Vestmannaeyjum, hætti við að fá hann til þess að leiða brekkusönginn á hátíðinni í ár, eftir að aðgerðasinnahópurinn Öfgar birti fjölda ásakana á hendur honum um kynferðislega áreitni og ofbeldi.
Eftir að málið komst í hámæli sendi þáverandi lögmaður Ingólfs, Vilhjálmur H.Vilhjálmsson, minnst sex einstaklingum kröfubréf vegna ummæla um Ingólf á samfélagsmiðlum eða í fjölmiðlum. Í öllum tilvikum var þess krafist að Ingólfur yrði beðinn afsökunar, auk þess sem greiðslu miskabóta og lögmannskostnaðar var krafist. Vilhjálmur er síðan búinn að segja sig frá máli Ingólfs.