PRIDE er skemmtilegt og fjörugt popplag sem ber boðskap um að vera maður sjálfur og fagna fjölbreytileikanum í hvaða mynd sem hann tekur á sig.
Lagið er búið til í samstarfi við Martein Hjartarson, betur þekktur sem BNGR Boy en þeir hafa unnið hörðum höndum í hljóðverinu undanfarnar vikur.
Hér að neðan má hlusta á lagið.
Kom út úr skápnum í skiptum fyrir munntóbak
Bassi sló í gegn í þáttunum Æði sem sýndir hafa verið á Stöð 2. Þar fylgdust áhorfendur með lífi hins fjöruga þríeykis, Patreks Jamie, Binna Glee og Bassa Maraj.
Í þáttunum mátti fylgjast með Bassa taka sín fyrstu skref sem tónlistarmaður. Úr varð hans fyrsta lag sem bar einfaldlega titilinn Bassi Maraj og sló rækilega í gegn.
Sjálfur er Bassi samkynhneigður og stendur Gleðigangan honum því nærri. Ísland í dag ræddi við Bassa fyrr á árinu þar sagði frá því þegar hann kom út úr skápnum.
„Ég kem út úr skápnum þegar ég var sextán ára eða í fyrsta bekk í menntaskóla. Það var út af því að mamma mín var að berja á hurðina hjá mér og öskra, þér mun líða betur ef þú kemur út úr skápnum. Ég gerði bara samning við hana ef hún myndi kaupa handa mér dollu í hverri viku þá myndi ég gera það,“ segir Bassi en þar á hann við dollu af munntóbaki. „Hún stóð alveg við það í þrjár vikur.“
Hér að neðan má horfa á Ísland í dag þáttinn í heild sinni.