Það þýðir að rúmlega þrettán milljónir Ástrala, eða hálf þjóðin, þarf nú að halda sig heima enn eina ferðina. Fólk má einungis fara út til að versla í matinn, stunda líkamsrækt og sinna allra nauðsynlegustu erindum.
Reiði fer nú vaxandi meðal almennings að sögn breska ríkisútvarpsins en óljóst er hve lengi reglurnar munu verða í gildi í stórborgunum Sydney og Melbourne.
Rúmlega fimmtán hundruð hafa smitast af Delta-afbrigðinu í Sydney, þar af 110 í dag. Samkvæmt spálíkani eru líkur á að taka muni nokkra mánuði að kveða afbrigðið í kút í borginni. Því er óttast að útgöngubann verði í gildi fram í september.
Delta-afbrigðið smitast mun greiðar en önnur afbrigði og reiði almennings beinist ekki síst að þeirri staðreynd að þrátt fyrir að Áströlum hafi gengið vel í baráttunni við faraldurinn hingað til er hlutfall bólusettra afar lágt. Aðeins er búið að bólusetja fjórtán prósent þjóðarinnar, sem er lægsta hlutfallið á meðal OECD ríkjanna.