Enski boltinn

Man. City vill fá bæði Grealish og Kane í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Kane og Jack Grealish fagna marki enska landsliðsins með þeim Bukayo Saka og Jesse Lingard.
Harry Kane og Jack Grealish fagna marki enska landsliðsins með þeim Bukayo Saka og Jesse Lingard. Getty/Alex Pantling

Englandsmeistarar Manchester City hafa áhuga á að kaupa bæði Harry Kane og Jack Grealish samkvæmt heimildum erlendra miðla. Langbesta lið tímabilsins gæti því orðið enn sterkara á næstu leiktíð.

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, vill fá Harry Kane en hann er jafnvel enn spenntari fyrir Grealish ef marka má heimildir ESPN.

Þeir Harry Kane og Jack Grealish verða væntanlega báðir í stóru hlutverki hjá enska landsliðinu á EM í sumar en voru þeir hvor um sig mjög öflugir með liðum sínum á leiktíðinni.

Kane var bæði markahæstur og stoðsendingahæstur í ensku úrvalsdeildinni og Jack Grealish fór fyrir spútnikliði Aston Villa sem stóð sig vonum framar.

Manchester United hefur líka áhuga á Grealish en City menn eru bjartsýnir að hafa betur í því kapphlaupi. Aston Villa vill fá hundrað milljónir punda fyrir leikmanninn en hann er með samning við félagið til 2025.

City þarf að finna leikmann í stað Sergio Aguero og Kane er fyrstur kostur í að koma inn í framlínu liðsins í stað Argentínumannsins. Kane verður ekki ódýr en hann virðist vera búinn að gefa upp vonina að vinna eitthvað með Tottenham liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×