„Í júní fyrir þremur árum lagðist á mig gigt, svo kölluð fylgigigt. Hún kom einsog þruma úr heiðskíru lofti. Einsog sjálfsagt einhverjir muna var ég verulega slæmur lengi vel og þurfti að styðjast við staf allt fram til áramóta. Og ég er ennþá að sprauta mig vikulega með lyfjum. En þvílík undralyf. Um helgina sigraðist ég á sjálfum mér, gigtinni og (sjalfsköpuðu) hreyfingarleysi þessara ára með því að klífa Hvannadalshnjúk í frábærum hópi fólks. “
Kalt á toppnum
Hópurinn hafði sextán tíma glugga til þess að komast upp og niður aftur á milli votviðris, vinda og skúra.
„Við óðum snjó í ökkla upp og miðja kálfa niður og hreppum alls konar verður. Ég ætla ekki að halda því fram að þetta hafi verið auðvelt. Eða að ég sé ekki með strengi og finni til hér og þar. Ég get jafnframt staðfest að það er kalt á toppnum.“
Leiðsögumenn leiðangursins voru þau Marta Kusinska og Brook Woodman hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum og hrósar Dagur þeim fyrir fagmennskuna.
„En þetta var magnað og ég get ekki lýst því með orðum hversu óralangt tilfinningin að ná þessum áfanga var á við óvissuna og glímuna við gigtina undangengin ár. Ég ætla að því að tileinka þessa göngu öllum sem glíma við gigt, og þakka Ragnari Frey gigtlækninum mínum og öllum sem hafa komið að meðferðinni.“
Dagur birti nokkrar myndir úr ferðinni á Instagram síðu sinni og má sjá þær í færslunni hér fyrir neðan.