Fótbolti

Ellefti titillinn blasir við Atlético sem þarf þó sigur í dag

Sindri Sverrisson skrifar
Luis Suárez er markahæstur í liði Atlético Madrid í vetur á sinni fyrstu leiktíð með liðinu eftir komuna frá Barcelona.
Luis Suárez er markahæstur í liði Atlético Madrid í vetur á sinni fyrstu leiktíð með liðinu eftir komuna frá Barcelona. Getty/David S. Bustamante

Atlético Madrid verður Spánarmeistari í ellefta sinn, og í annað sinn á þessari öld, takist liðinu að landa sigri í lokaumferð spænsku 1. deildarinnar í fótbolta í dag.

Lokaumferðin er kl. 16 í dag og verða leikirnir sem ráða úrslitum í meistarabaráttunni, á milli Real Valladolid og Atlético, og á milli Real Madrid og Villarreal, í beinni útsendingu á sportrásum Stöðvar 2.

Luis Suárez og félagar í Atlético eru með 83 stig, tveimur stigum á undan erkifjendum sínum í Real. Valladolid er í næstneðsta sæti en gæti mögulega bjargað sér frá falli með sigri í dag.

Jafntefli dugar Atlético ekki til að verða meistari ef Real vinnur Villarreal. Þá yrðu liðin jöfn að stigum og Real með betri stöðu úr innbyrðis leikjunum við Atlético.

Barcelona hefur stimplað sig út úr titilbaráttunni og gæti dregist niður fyrir Sevilla í 4. sæti ef liðið tapar gegn Eibar í dag.

Lionel Messi hefur þegar tryggt sér markakóngstitilinn en hann er með 30 mörk. Gerard Moreno úr Villarreal kemur næstur með 23, Karim Benzema er með 22 fyrir Real og Suárez 20 fyrir Atlético.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×