Fótbolti

Messi gæti hafa spilað sinn síðasta leik fyrir Barcelona

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lionel Messi skorar í leik Barcelona og Celta Vigo um síðustu helgi. Svo gæti farið að þetta hafi verið hans síðasti leikur og síðasta mark fyrir Barcelona.
Lionel Messi skorar í leik Barcelona og Celta Vigo um síðustu helgi. Svo gæti farið að þetta hafi verið hans síðasti leikur og síðasta mark fyrir Barcelona. getty/Siu Wu

Lionel Messi mun ekki spila lokaleik Barcelona í spænsku úrvalsdeildinni gegn Eibar á morgun. Því er möguleiki á að hann hafi leikið sinn síðasta leik fyrir félagið.

Messi fékk leyfi til að sleppa leiknum á morgun til að fá meiri tíma til að undirbúa sig fyrir Suður-Ameríkukeppnina sem fer fram í Argentínu í sumar.

Eftir 1-2 tapið fyrir Celta Vigo á sunnudaginn er ljóst að Barcelona á ekki lengur möguleika á að verða spænskur meistari. Börsungar eru í 3. sæti spænsku úrvalsdeildarinnar en gætu misst það til Sevilla ef úrslitin í lokaumferðinni verða óhagstæð. Madrídarliðin, Atlético og Real, berjast um spænska meistaratitilinn.

Messi hefur ekki enn skrifað undir nýjan samning við Barcelona og getur því farið frítt frá félaginu í sumar. Hann vildi komast frá Barcelona fyrir síðasta tímabil en ákvað að halda kyrru fyrir.

Óvíst er hvað gerist í sumar. Messi hefur meðal annars verið orðaður við Englandsmeistara Manchester City og Paris Saint-Germain.

Messi hefur leikið með Barcelona allan sinn feril og er fyrirliði liðsins. Hann er bæði leikja- og markahæstur í sögu Barcelona.

Messi lék 47 leiki á þessu tímabili, skoraði 38 mörk og lagði upp fjórtán. Hann er langmarkahæstur í spænsku úrvalsdeildinni með þrjátíu mörk.

Leikur Eibar og Barcelona hefst klukkan 16:00 á morgun og verður sýndur beint á Vísi.


Spænski boltinn, La Liga, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. La Liga er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×