Daði og Gagnamagnið hafa undanfarna daga mælst í fjórða sæti þegar löndunum er raðað eftir vinningslíkum í veðbönkum. Nú hefur hljómsveitin fallið niður um tvö sæti í sjötta sæti, með aðeins um 6% sigurlíkur, að því er segir á Eurovision World.
Upptaka af annarri æfingu sveitarinnar verður notuð í undankeppninni annað kvöld og á aðalkeppninni ef til þess kemur.

Á BBC er fjallað um málið og Eurovision-fréttamaður þeirra skrifar að þetta hljóti að vera þungt högg fyrir Daða og félaga, sem hafi verið að bíða eftir stóru stundinni í tvö ár.
Daily Express talar um ringulreið eftir kórónuveirusmit hljómsveitarmeðlimsins og slær því upp í fyrirsögn að Ísland sé dottið út eftir „hörmungar á elleftu stundu.“
Hörmungar er lýsing sem íslenska sendinefndin tæki sennilegast undir. Jóhann Sigurður Jóhannsson, sá sem smitaðist, rakti raunir sínar á Instagram í gær og brast þar í grát þegar hann sagði frá því áfalli sem tíðindin hefðu haft í för með sér.
Ljóst er að Íslendingar taka þrátt fyrir allt áfram þátt í Eurovision og dagskráin verður á sínum stað annað kvöld. Gísli Marteinn Baldursson verður þar þulur frá hótelherbergi sínu í Rotterdam, allt saman beint úr sóttkvínni.