Mikil spenna er á toppi spænsku deildarinnar. Atlético Madrid er á toppnum með 77 stig en Real Madrid og Barcelona koma þar á eftir með 75 stig. Sevilla er svo með 71 stig en ef liðið hefði unnið í gær, sem allt stefndi í, væri það enn með í titilbaráttunni.
Á 13. mínútu kom Karim Benzema Real Madrid yfir en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Níu mínútum síðar kom Fernando Sevilla í 0-1 sem voru hálfleikstölur.
Á 67. mínútu jafnaði varamaðurinn Marco Asensio fyrir Real Madrid eftir sendingu frá Toni Kroos.
Sjö mínútum síðar upphófst svo ótrúleg atburðarrás. Eftir hornspyrnu gestanna geystust heimamenn í skyndisókn, Benzema slapp í gegn og Bono, markvörður Sevilla, braut á honum. Dómarinn Juan Martínez Munuera benti á vítapunktinn.
Eftir skoðun á myndbandi var dómurinn dreginn til baka og þess í stað dæmt víti á Eder Militao, varnarmann Real Madrid, fyrir hendi í hornspyrnunni rétt áður en Benzema slapp í gegn.
Ivan Rakitic tók vítaspyrnuna, skoraði af öryggi og kom Sevilla í 1-2. Allt benti til þess að það yrði sigurmarkið en á fjórðu mínútu í uppbótartíma átti Kroos skot sem fór af Eden Hazard og í netið. Lokatölur 2-2. Mörkin og umdeildu atvikin úr leiknum má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.
Zinedine Zidane, knattspyrnustjóri Real Madrid, var saltvondur eftir leik og sagðist hvorki skilja upp né niður í VAR. Hann vildi fá víti fyrr í leiknum þegar Sevilla-maðurinn Joan Jordan fékk boltann í höndina.
„Ég er mjög reiður. Þú verður að skýra reglurnar um hendi út fyrir mér. Ég ræddi við dómarann og óskaði eftir útskýringu. Hann sagði að þetta væri hendi á Militao en hitt ekki. Venjulega tala ég ekki um dómara en þetta var ekki gott,“ sagði Zidane.
Með sigri í gær hefði Real Madrid komist á topp spænsku deildarinnar. Liðið þarf hins vegar núna að treysta á að Atlético Madrid misstígi sig til að verja Spánarmeistaratitilinn.

Spænski boltinn, La Liga, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. La Liga er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.