Í gær hafði báturinn sjálfur þó ekki fundist enn en nú virðist sem flakið sjálft sé komið í leitirnar. Forseti Indónesíu hefur sent fjölskyldum þeirra sem fórust með kafbátnum samúðarkveðjur sínar að því er segir í frétt Sky News af málinu.
Áætlað hafði verið að súrefnisbirgðir í bátnum yrðu á þrotum snemma morguns í gær og var því veik von um að báturinn myndi finnast í tæka tíð með tilliti til þessa. Fyrir liggur nú að báturinn hefur sokkið niður á um 850 metra dýpi, vel niður fyrir það hámark sem hann þolir.
„Við höfum fengið myndir sem teknar voru neðansjávar sem staðfesta fund bátsins,“ sagði herforinginn Hadi Tjahjanto í samtali við fréttamenn í dag. „Með þessum sönnunargögnum getum við staðfest að [kafbáturinn] KRI Nanggala 402 hefur sokkið og að allir meðlimir áhafnarinnar eru látnir,“ bætti hann við.
Í myndbandinu hér að ofan má sjá myndirnar sem teknar voru neðansjávar og sýndar voru á blaðamannafundinum.
Ekki liggur fyrir hvers vegna báturinn sökk en grunur leikur á um að bilun hafi komið upp í rafmagnsbúnaði. Indónesíski herinn naut aðstoðar liðsauka víða að úr heiminum við leitina af kafbátnum.