Þó að Bayern München hafi átt ótalmargar marktilraunir þá var það PSG sem skoraði fleiri mörk og vann 3-2 sigur. Kylian Mbappé skoraði fyrsta markið með góðri aðstoð Neymars, og Marquinhos slapp við rangstöðu og jók muninn í 2-0.
Bayern náði þó að jafna metin, með mörkum frá Eric Choupo-Moting og Thomas Müller, áður en að Mbappé skoraði seinna markið sitt.
Chelsea er í enn betri stöðu en PSG, í rimmu sinni við Porto eftir 2-0 útisigur í gær. Leikurinn fór reyndar fram í Sevilla á Spáni vegna kórónuveirufaraldursins, og þar verður seinni leikur liðanna einnig, næsta þriðjudag.
Mason Mount skoraði fyrra mark Chelsea í gær eftir laglegan snúning, og Ben Chilwell nýtti sér varnarmistök til að skora seinna markið eftir afar lipran sprett.