Leikmenn United eru engu að síður mættir til ferðamannaborgarinnar fallegu, eftir ævintýralega upprisu Granada undir stjórn þjálfarans Diego Martínez. Leikur liðanna hefst kl. 19 í kvöld og er sýndur á Stöð 2 Sport 2.
Martínez, þá 37 ára, tók við Granada sumarið 2018 og var þá lítt þekktur. Hann hafði þó verið meðal annars aðstoðarþjálfari hjá Sevilla og stýrt Osasuna í eina leiktíð.
Hjá Granada hefur allt gengið upp undir stjórn Martínez og það er ekki vegna þess að peningum hafi verið dælt í félagið. Dýrasti leikmaðurinn í hópnum í dag er sóknarmaðurinn Luis Suárez, öllu óþekktari en nafni hans hjá Atlético Madrid, sem keyptur var frá Watford fyrir 6,75 milljónir punda.

Granada vann sig upp úr spænsku B-deildinni á fyrstu leiktíðinni undir stjórn Martínez og endaði svo í 7. sæti í fyrra. Þar með komst liðið í Evrópukeppni í fyrsta sinn.
Á leið sinni í 8-liða úrslit Evrópudeildarinnar, gegn United, sló liðið út Molde og Napoli eftir að hafa endað í 2. sæti síns riðils, stigi á eftir PSV Eindhoven.
Segir þjálfarann hafa breytt öllu
Í fremstu víglínu hjá Granada er hinn 35 ára gamli Roberto Soldado, fyrrverandi framherji Tottenham, sem Martínez fékk til félagsins eftir að Granada komst upp í efstu deild 2019. Soldado reyndi að útskýra hverju Martínez og aðstoðarmenn hans hefðu breytt:
„Þeir hafa gjörsamlega umturnað öllu. Þeir endurnýjuðu allt í umgjörðinni hjá félaginu og vöxtur félagsins er að stærstum hluta Martínez að þakka, og þeirri trú sem búningsklefinn hefur á hans vinnu,“ sagði Soldado.
Granada hefur tapað síðustu tveimur leikjum sínum í spænsku 1. deildinni og er í 9. sæti. Möguleikinn á að liðið leiki aftur í Evrópukeppni á næstu leiktíð er því ekki mikill en sigur í Evrópudeildinni myndi þó að minnsta kosti fleyta liðinu þangað.

Evrópudeild UEFA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Evrópudeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.