Í Æði er fylgst með lífi raunveruleikastjörnunnar Patreks Jaime. Í fyrstu þáttaröð kom vinur hans, Bassi Maraj, mjög mikið við sögu og í annarri bættist Binni Glee við í burðarhlutverki.
Þeir félagar hafa haldið þáttunum uppi með glæsibrag en í þriðju þáttaröð, sem stefnt er á að fari í tökur í sumar og verði sýnd á Stöð 2+ í haust, á að gefa enn meira í.
Þess vegna er hafin leit að fjórða meðliminum í teyminu sem fylgst er með í þáttunum og er brugðið á þann leik að leita til almennings og fólk beðið um að koma með ábendingar um skemmtilega og litríka einstaklinga sem gætu notið sín vel í þáttunum.
„Viðbrögðin við Æði hafa verið það góð að ekkert annað kom til greina en að halda áfram í þriðju þáttaröð. Við erum mjög spennt fyrir leitinni að fjórða meðliminum og hvetjum fólk til að skjóta á okkur ábendingu,“ segir Þórhallur Gunnarsson, framkvæmdastjóri miðla hjá Sýn.