Í viðtali við Sky Sports sagði Hamilton að hann hafi aðeins skrifað undir eins árs framlengingu því „það hafi ekki verið nein þörf“ á að skipuleggja framtíðina frekar. Þar með gaf hann í skyn að hann gæti skrifað undir stutta samninga í Formúlunni héðan í frá.
Hamilton samdi við Mercedes í febrúar eftir að hafa legið undir feldi varðandi hvað framtíðin bæri í skauti í sér. Hann er að fara taka þátt í sínu 15. tímabili í Formúlu 1 og hefur ekki talað um að leggja stýrið á hilluna en hann virðist ekki vilja skuldbinda sig til lengri tíma.
Here's that @LewisHamilton content you ordered. pic.twitter.com/vsBUoQnkG0
— Mercedes-AMG PETRONAS F1 Team (@MercedesAMGF1) March 2, 2021
„Við erum uppi á skrítnum tíma og ég vildi bara skrifa undir eins árs framlengingu. Svo getum við bætt við það þegar þar að kemur,“ sagði hinn 36 ára gamli Englendingur.
Hamilton stefnir á sinn áttunda heimsmeistaratitil, eitthvað sem hefur ekki verið gert áður í Formúlu 1 áður. Hann segir þó margt annað skipta máli á komandi tímabili, þá aðallega jafnrétti og baráttuna gegn kynþáttafordómum.
„Það er það sem keyrir mig áfram þessa dagana,“ sagði Hamilton um baráttu sína gegn fordómum en bætti að lokum við.
„Auðvitað erum við þarna til að vinna, það er það sem við öll hjá Mercedes stefnum á og mitt markmið er að koma til baka með titilinn fyrir þau.“