Fótbolti

Stjóri Atalanta segir dómarann hafa eyðilagt leikinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tobias Stieler gefur Remo Freuler rauða spjaldið í leik Atalanta og Real Madrid í Bergamo í gær.
Tobias Stieler gefur Remo Freuler rauða spjaldið í leik Atalanta og Real Madrid í Bergamo í gær. getty/Tullio Puglia

Gian Piero Gasperini, knattspyrnustjóri Atalanta, segir að dómarinn Tobias Stieler hafi eyðilagt leik liðsins gegn Real Madrid í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í gær.

Real Madrid vann leikinn, 0-1, með marki Ferlands Mendy á 86. mínútu. Atalanta var manni færri frá 17. mínútu þegar Remo Freuler var rekinn af velli fyrir brot á Mendy. Gasperini segir að leiknum hafi lokið þegar Freuler var rekinn út af.

„Ég veit ekki hver úrslitin hefðu orðið en leikurinn var eyðilagður vegna atviks sem var oftúlkað,“ sagði Gasperini eftir leikinn.

„Ég er nýbúinn að fá bann heima fyrir fyrir ummæli mín. Ef ég segi eitthvað núna dæmir UEFA mig í mánaðar bann. Þetta er fótboltasjálfsmorð. Við getum ekki verið með dómara sem hafa aldrei spilað leikinn og þekkja ekki muninn á tilraun í boltann og broti. Ef þeir þekkja ekki muninn ættu þeir að finna sér eitthvað annað að gera. Þeir ættu að fá fólk sem hefur spilað leikinn.“

Þrátt fyrir 0-1 tap var Gasperini nokkuð sáttur með frammistöðu sinna manna í leiknum í gær.

„Við vörðumst vel og vorum nálægt því að gera markalaust jafntefli. En þetta hefði klárlega verið skemmtilegra ellefu á móti ellefu,“ sagði Gasperini.

„Við hefðum getað tapað hvort sem er, ég er ekki að kvarta yfir úrslitunum, en við hefðum að minnsta kosti getað spilað okkar leik. Við erum samt sáttir og förum til Madrídar til að spila okkar leik.“


Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×