Fótbolti

ESPN: Man City ætlar að reyna við Messi en fara allt aðra leið en PSG

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brotið á Lionel Messi í leik Barcelona og Real Betis í spænska boltanum um helgina.
Brotið á Lionel Messi í leik Barcelona og Real Betis í spænska boltanum um helgina. EPA-EFE/Julio Munoz

Manchester City hefur ekki gefið upp vonina um að ná í Lionel Messi á frjálsri sölu í sumar ef marka má heimildir bandaríska íþróttamiðilsins ESPN.

Samkvæmt frétt ESPN þá ætlar Manchester City hins vegar að sýna þolinmæði í þessu máli og bíða þar til í mars eða apríl til að kanna stöðuna á argentínska snillingnum.

Hinn 33 ára gamli Lionel Messi rennur út á samningi í júní og hefur mátt ræða við önnur lið síðan 1. janúar síðastliðinn. Það leit út að Manchester City væri í forystunni í kapphlaupinu um undirskrift Messi í ágúst í fyrra þegar hann bað um að fá að fara frá Barcelona.

Það hefur minna heyrst af Messi málum hjá Manchester City síðan þá. Aðra sögu hefur verið að segja af franska félaginu Paris Saint-Germain. Paris Saint-Germain hefur látið það vel í ljós að félagið ætli að reyna að semja við Messi í lok tímabilsins.

Það lítur út fyrir að leið Manchester City sé miklu líklegri til árangurs en sú hjá PSG. Heimildarmenn ESPN hjá Barcelona segja að það sé miklu skynsamlegra að gera eins og City sem er að leyfa tímabilinu hjá Barcelona að þróast og tala frekar við Messi seinna í vor.

„PSG er að gera mistök í sinni aðferðafræði,“ sagði einn heimildarmaðurinn við ESPN en annar sagði: „Leo er ekki hrifinn af öllum fjaðrafokinu í fjölmiðlum og er jafnvel enn minna hrifinn af því sem PSG menn eru að láta frá sér.“

Það gæti líka haft mikil áhrif á framtíð Lionel Messi hjá Barcelona hver fagnar sigri í forsetakosningum félagsins í mars.

Barcelona liðið er í ágætis gír þessa dagana. Liðið er taplaust í ellefu síðustu deildarleikjum, vann sinn sjöunda deildarleik í röð á sunnudaginn, er komið í undanúrslit spænska bikarsins þar sem liðið mætir Sevilla og fram undan er síðan fyrri leikurinn á móti Paris Saint-Germain í sextán liða úrslita Meistaradeildarinnar. Sá leikur er í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×