Guðni segir að rætt hafi verið við fjóra umsækjendur. Eins og fram hefur komið var auk Þorsteins Elísabet Gunnarsdóttir ein þeirra en stjórn KSÍ taldi á endanum ekki rétt að ráða hana í starf landsliðsþjálfara í ljósi þess að hún hygðist áfram þjálfa lið sitt Kristianstad út þetta ár.
„Við vorum í raun og veru bara með lúxusvandamál – mjög góða kandídata. Á endanum varð Þorsteinn Halldórsson niðurstaðan og við erum bara mjög glöð með það,“ sagði Guðni við Vísi í dag.

Engir erlendir umsækjendur komu til greina í starfið að þessu sinni: „Við veltum því fyrir okkur en í raun og veru voru engin nöfn sem komu upp eða umsækjendur sem við töldum vænlegt að ræða sérstaklega við. Við ræddum því bara við þá kandídata sem sóttu um hér innanlands,“ sagði Guðni.
Þorsteinn með mjög sterka og skýra sýn
Samningur Þorsteins við KSÍ gildir fram yfir undankeppni HM en sú undankeppni hefst í haust og henni lýkur haustið 2022. Komist Ísland á HM framlengist samningur Þorsteins fram yfir lokakeppnina, sem fram fer í Ástralíu og Nýja-Sjálandi. Í millitíðinni er svo lokakeppni EM í Englandi sumarið 2021.
„Þorsteinn er ráðinn fyrst og fremst vegna þess árangurs og frammistöðu sem hann hefur sýnt með liði sínu síðustu ár, sem þjálfari Breiðabliks. Liðið hefur auðvitað náð mjög góðum árangri undir hans stjórn, og hann hefur byggt það upp í tvígang ef svo má segja. Liðið hefur unnið þrjá meistaratitla, bikarmeistaratitla og sýnt góðan árangur í Meistaradeild Evrópu.
Þar fyrir utan þá var það þannig þegar við töluðum saman og fórum yfir málin, að hann var með mjög sterka og skýra sýn á framgang liðsins og fótboltann. Fyrir okkur var hann því mjög góður kostur og ég er mjög ánægður með að hafa ráðið hann,“ sagði Guðni.

En hvaða árangri vill Guðni sjá landsliðið ná undir stjórn Þorsteins?
„Ég vonast til að við sjáum þróun í okkar leik. Að við vinnum vel áfram það sem hefur verið að gerast undanfarið. Það er ákveðin endurnýjun í gangi en við erum með blöndu af reynslumiklum leikmönnum og ungum og mjög efnilegum leikmönnum sem eru núna mikið að fara utan í atvinnumennsku og hafa sýnt miklar framfarir. Yngri landsliðunum hefur gengið vel og ég vil bara sjá að okkar leikur þróist og styrkist enn frekar. Það voru mjög góð teikn á lofti um margt hjá okkur í síðustu undankeppni,“ sagði Guðni.