Ísland dróst í dag í D-riðil með Portúgal, Grikklandi, Hvíta-Rússlandi, Kýpur og Liechtenstein. Ísland var í þriðja styrkleikaflokki fyrir dráttinn, fyrir neðan Portúgal og Grikkland.
Þetta verður fyrsta undankeppni U21-landsliðsins undir stjórn Davíðs Snorra Jónassonar sem tilkynntur var sem nýr þjálfari liðsins í síðustu viku.
Undankeppnin fer fram frá mars á þessu ári og fram til júní á næsta ári. Lokakeppnin er í Georgíu og Rúmeníu sumarið 2023. Sigurvegarar undanriðlanna og eitt lið úr 2. sæti komast beint í lokakeppnina, en hin átta liðin sem verða í 2. sæti fara í umspil um fjögur laus sæti.
Lokakeppni fyrra U21-liðsins framundan
Ísland komst áfram úr síðustu undankeppni EM og leikur því í lokakeppninni í annað sinn í sögu U21-landsliðs karla. Fyrra skiptið var á EM 2011.
Lokakeppnin í ár er í tveimur hlutum og er fyrri hlutinn í lok mars. Davíð Snorri stýrir liðinu í lokakeppninni en hann tók við af Arnari Þór Viðarssyni á dögunum, eftir að hafa áður stýrt U19-landsliðinu.
Ísland er í riðli með Rússlandi, Danmörku og Frakklandi í lokakeppninni og leikur alla sína leiki í Györ í Ungverjalandi. Tvö efstu liðin komast áfram í 8-liða úrslitin sem fara ekki fram fyrr en 31. maí, þegar seinni hluti lokakeppninnar fer fram.