Í þáttunum Nostalgía á Stöð 2 í gær voru skemmtilegir þættir rifjaður upp. Um var að ræða Hæðina með Gulla Helga og síðan Bandið hans Bubba sem Eyþór Ingi vann eftirminnilega.
Eitt sérstakt atvik í þáttunum vakti aftur á móti mikla athygli og það var þegar Vilhjálmur Örn Hallgrímsson var spurður hvernig honum liði á sviðinu. Svar hans var á eðlilegum nótum en var erfitt að skilja sem má líklega rekja til stressins sem fylgir því að koma fram í sjónvarpi. „Mér líður bara ágætlega vel bara,“ sagði Vilhjálmur í þættinum.
Haukur Viðar Alfreðsson hlóð inn myndbroti af atvikinu á YouTube á sínum tíma og hefur verið horft á það 330 þúsund sinnum á níu árum. Haukur skrifaði bakþanka í Fréttablaðið árið 2015 þar sem hann bað Vilhjálm afsökunar á myndbandinu.
Haukur rifjar upp kvöldið þegar hann setti myndbandið í loftið og bað Villa enn einu sinni afsökunar. Hér að neðan má sjá skemmtilegt brot úr þætti gærkvöldsins.