Fótbolti

Sportpakkinn: Vonandi getum við spilað í júní

Sindri Sverrisson skrifar
Guðni Bergsson er formaður KSÍ.
Guðni Bergsson er formaður KSÍ. vísir/skjáskot

„Það er alla vega búið að fresta þessu um sinn og vonandi getum við spilað þarna í júní,“ segir Guðni Bergsson, formaður KSÍ, um EM-umspilið sem íslenska karlalandsliðið í fótbolta tekur þátt í.

Umspilinu var í dag frestað fram í júní en það átti að fara fram 26. og 31. mars. Guðni tók þátt í stórum fjarfundi UEFA í dag þar sem niðurstaðan var sú að fresta EM karla um eitt ár og umspilinu fram í júní. Guðni ræddi málin við Guðjón Guðmundsson í Sportpakkanum á Stöð 2 í kvöld og sagði ljóst að til frekari frestunar umspilsins gæti komið:

„Ég held að það sé alveg mögulegt. Við verðum bara að vera raunsæ með það. Framvindan hefur auðvitað verið með ólíkindum undanfarna daga og vikur svo það er erfitt til um að segja en við vonum svo sannarlega að við getum spilað þennan mikilvæga leik í júní og að hlutirnir fari að lagast eitthvað. En það er erfitt að segja til um það,“ sagði Guðni og ekki alveg ljóst nákvæmlega hvenær Rúmenía mætir á Laugardalsvöll.

„Vegna samkomubannsins var útséð með að við gætum spilað fyrir framan okkar áhorfendur 26. mars. Úr því sem komið var er svo sem fínt að fresta þessum leik og fá hann þá í sumar, fyrir framan okkar fólk og okkar stuðningsmenn. Það viljum við auðvitað. Við horfum fram til júní og verðum þá vonandi með okkar sterkasta lið og hlutirnir kannski í betra horfi almennt í samfélaginu en í dag,“ sagði Guðni en nánar er rætt við hann í innslaginu hér að neðan.

Klippa: Sportpakkinn: Guðni Bergs ræddi um umspilið

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×