EM karla í fótbolta 2020 breyttist í EM 2021 á fundi UEFA í morgun en nú lítur út fyrir það að EM kvenna verði líka seinkað um eitt ár.
Fyrstu fréttir í morgun voru um að EM karla eigi að fara fram frá 11. júní til 11. júlí á næsta ári en Evrópumót kvenna átti síðan að hefjast 11. júní. Það er hins vegar mikið mál að halda eitt Evrópumót hvað þá tvö sama sumar.
Knattspyrnusamband Evrópu ætlar því að færa kvennamótið vegna þess að karlamótið var fært frá 2020 til 2021 vegna kórónuveirunnar.
Även damernas mästerskap kommer att flyttas #fotboll https://t.co/W7y4TqtDaE
— SVT Sport (@SVTSport) March 17, 2020
Nú lítur út fyrir að EM kvenna fari ekki fram fyrr en sumarið 2022 en sænska blaðið Expressen og SVT hafa heimildir fyrir þessu. UEFA ætlar líka að seinka Evrópumóti 21 árs landsliða sem átti líka að fara fram árið 2021.
Evrópumót kvenna fer fram í Englandi og er búist við miklum áhuga á því í kjölfarið á mjög vel heppnuðu heimsmeistaramóti á síðasta ári.
Íslenska kvennalandsliðið er í góðri stöðu í sínum riðli í undankeppninni en liðið hefur unnið þrjá fyrstu leiki sína með markatölunni 11-1. Íslenska liðið á hins vegar eftir að spila fimm leiki á þessu ári og áttu fjórir þeirra að fara fram frá apríl til júní.