Á Íslandi eru þessir klúbbar ólöglegir og sækja því Íslendingar sem áhuga hafa á þessari senu kynlífsklúbba erlendis.
Í kjölfar viðtala sem Makamál hafa tekið við fólk sem stundar makaskipti og kynlífsklúbba erlendis, voru lesendur Vísis spurðir um áhuga sinn á þessum klúbbum.
Tæplega 3500 manns tóku þátt í könnuninni og voru aðeins 34 prósent lesenda sem sögðust engan áhuga hafa á kynlífsklúbbum. 23% prósent lesenda sögðust hafa prófað að fara á kynlífsklúbb eða stunda þá reglulega.
Stærsti hópurinn, eða 43 prósent lesenda, var fólk sem ekki hefur farið á kynlífsklúbb en segist hafa áhuga á því að prófa.
Niðurstöður*:
Já, ég fer reglulega - 6%
Já, ég hef prófað - 17%
Nei, en langar til þess að prófa - 23%
Nei, en langar kannski að prófa - 20%
Nei, ég hef ekki áhuga - 34%
Sitt sýnist hverjum um ágæti þessara klúbba og eru þeir vafalaust eins misjafnir og þeir eru margir. Þó voru þeir viðmælendur sem Makamál talaði við sammála um að almennt ríkti mikil virðing milli fólks á þessum stöðum og það upplifði ekki áreiti.
Í viðtali við íslensk hjón sem stunda kynlífsklúbba saman, sagði konan þetta:
Ég verð fyrir meira áreiti að labba fullklædd á skemmtistað hér í bænum heldur en að labba um á sexy nærfötum á svona swing-klúbbi erlendis.
Í viðtali við mann sem stundar kynlífsklúbba sagði hann þetta:
Konur geta verið mjög léttklæddar og karlmenn líka en það er mikil virðing ríkjandi á milli fólks á þessum stöðum. Þú getur til dæmis alveg valið það að vera alveg fullklæddur inni á kynlífsklúbbunum þó að aðrir séu naktir eða léttklæddir. Sumir kjósa bara að sitja við barinn eða borða með öðru fólki og spjalla. Það er aldrei nein pressa.
Umsjónamaður Makamála mætti í Brennsluna á FM957 og ræddi niðurstöðurnar ásamt því að kynna til leiks nýja Spurningu vikunnar. Hægt er að hlusta á líflegar umræður hér fyrir neðan.
*Tekið skal fram að niðurstöður byggjast eingöngu á svörum lesenda Vísis og því ekki hægt að alhæfa um niðurstöður. Kannanir Makamála eru ætlaðar til skemmtunar og til að vekja umræðu og athygli á ýmsum málefnum.