Fótbolti

Zidane: Kæmi mér ekki á óvart ef ég yrði rekinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zinedine Zidane hefur þurft að horfa upp á mjög misjafna frammistöðu Real Madrid liðsins í Meistaradeildinni í vetur.
Zinedine Zidane hefur þurft að horfa upp á mjög misjafna frammistöðu Real Madrid liðsins í Meistaradeildinni í vetur. EPA-EFE/JUANJO MARTIN

Zinedine Zidane, knattspyrnustjóri Real Madrid, þarf svo sannarlega á sigri að halda í Meistaradeildinni í kvöld enda bæði sæti í sextán liða úrslitum og mögulega starfið hans undir.

Zinedine Zidane ræddi framtíð sína á blaðamannafundi fyrir leik Real Madrid og Borussia Mönchengladbach í lokaumferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar en leikurinn fer fram í kvöld.

Zidane er í hættu á að vera rekinn úr starfi eftir mjög dapurt gengi Real Madrid á leiktíðinni því auk þess að vera í stressi yfir framtíð liðsins í Meistaradeildinni þá er Real Madrid liðið einnig búið að tapa þremur leikjum í spænsku deildinni á leiktíðinni.

Zidane var spurður á blaðamannafundinum í gær hvort að það kæmi á óvart ef hann þyrfti að taka pokanna sinn falli úrslitin ekki með Real Marid í kvöld.

„Nei. Félagið mun gera það sem það þarf að gera eins og alltaf,“ sagði Zinedine Zidane.

„Ég er ekki að hugsa um það. Ég er að hugsa um leikinn á morgun (í kvöld). Félagið mun taka sínar ákvarðanir eins og alltaf en ég er ekki að hugsa um það ef ég svara hreinskilnislega,“ sagði Zidane.

Zinedine Zidane hefur stýrt Real Madrid þrisvar til sigurs í Meistaradeildinni (2016, 2017 og 2018) en liðið datt út fyrir Manchester City í sextán liða úrslitnum í haust.

Real Madrid vann spænska meistaratitilinn undir stjórn hans á síðustu leiktíð en í ár hefur liðið tapað fyrir liðum Cadiz, Valencia og Alaves í spænsku deildinni.

Blaðamenn héldu áfram að spyrja Zinedine Zidane út í mögulegan brottrekstur og hvort að það yrði mjög sárt fyrir hann að vera rekinn í fyrsta sinn á ferlinum.

„Nei. Fortíðin er að baki. Það mikilvæga er nútíðin og framtíðin. Það sem gerist mun bara gerast,“ sagði Zidane.

Leikur Real Madrid og Borussia Mönchengladbach verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 4 frá klukkan 19.50. Aðrir leikir í beinni í kvöld verða Midtjylland-Liverpool (Stöð 2 Sport 4 frá klukkan 17.45), Manchester City-Marseille (Stöð 2 Sport 3 frá klukkan 19.50) og Salzburg-Atletico Madrid (Stöð 2 Sport 5 frá klukkan 19.50). Meistaradeildarmörkin hefjast klukkan 19.30 á Stöð 2 Sport 2 en þar verður fylgst með öllum leikjum kvöldsins á sama tíma.


Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×