Ísland, sem vann 0-1 sigur á Ungverjalandi í gær, endaði í 2. sæti F-riðils með nítján stig. Íslendingar komust beint á EM sem eitt þeirra þriggja liða sem var með bestan árangur liðanna í 2. sæti riðlanna níu í undankeppninni.
Ísland vann sex af átta leikjum sínum í F-riðli, gerði eitt jafntefli og tapaði einum leik. Markatalan var 25-5. Tíu leikmenn skoruðu fyrir Ísland í undankeppninni auk þess sem eitt marka liðsins var sjálfsmark Karlinu Miksone, leikmanns Lettlands.
Elín Metta var markahæsti leikmaður Íslands í undankeppninni og markahæsti leikmaður F-riðils með sex mörk. Valskonan skoraði í fyrstu fimm leikjum Íslendinga í undankeppninni, þar af öllum fjórum heimaleikjunum.

Dagný Brynjarsdóttir var næstmarkahæst með fimm mörk eins og hin sænska Anna Anvegård. Dagný missti af þremur síðustu leikjum Íslands í undankeppninni vegna meiðsla.
Fanndís Friðriksdóttir, Sara Björk Gunnarsdóttir, Alexandra Jóhannsdóttir, Sveindís Jane Jónsdóttir og Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoruðu tvö mörk hver í undankeppninni. Hlín Eiríksdóttir, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Margrét Lára Viðarsdóttir voru allar með eitt mark.
Hin belgíska Tine De Caigny var markahæst í undankeppni EM 2022 með tólf mörk. Átta þeirra komu í tveimur leikjum gegn Litáen.