Listamaðurinn Árni Már Erlingsson opnar sýninguna Formfast þann 21. nóvember í Gallery Port.
Þetta er hans fyrsta einkasýning í Gallery Port og finnst honum mikilvægt að taka fyrir viðfangsefni sem hann hefur verið að þróa í öll þessi ár.
„Undirbúningur þessarar sýningar hefur staðið yfir í ár en segja má að drögin að henni hafi komið þegar ég og Sigurður Atli Sigurðsson vorum með opna vinnustofu á LungA árið 2012,“ segir Árni.
Frá því á LungA hefur Árni leikið sér að hinum ýmsu formum en þó helst í skissubókinni eða stökum verkum, en aldrei verið tekið föstum tökum eins og í þessari sýningu. Allt frá formföstum verkum yfir í óræð form, skúlptúra og verk unnin með spartli og í prenti tekst Árni á við myndheim sem svo sannarlega margir myndlistarmenn hafa reynt við.

Árni Már stofnaði Gallery Port með þeim Skarphéðni Bergþórusyni og Þorvaldi Jónssyni árið 2016 og hafa þeir haldið úti hátt í 100 sýningum og viðburðum.
„Gallery Port er listamannarekið gallerí ásamt því erum við með vinnustofur fyrir listamenn í sama húsi. Aðsókn í rýmið hefur farið fram úr öllum vonum, bæði af listamönnum sem vilja sýna, söfnurum og unnendum menningar. Því verður spennandi að sjá hvernig Formfast mun taka á sig mynd í sýningarsalnum,“ segir Árni.
Opnun sýningarinnar verður haldin frá 12:00 - 18:00 og að sögn verður farið vel eftir sóttvarnareglum.