Viðar Örn Kjartansson lagði upp fyrra mark Vålerenga og Matthías Vilhjálmsson skoraði það síðara í 2-0 sigri á Odds Ballklubb í norska boltanum í dag.
Viðar var sem fyrr í byrjunarliði Vålerenga en hann lagði upp fyrsta markið fyrir Herolind Shala á 39. mínútu. Þannig stóðu leikar í hálfleik.
Viðar var tekinn af velli fyrir Matthías á 72. mínútu og þrettán mínútum síðar hafði Ísfirðingurinn komið boltanum í netið. Lokatölur 2-0.
Vålerenga er í fimmta sæti deildarinnar með 42 stig, líkt og Odds, sem er sæti ofar á markahlutfalli. Fimm stig eru upp í annað stið er sex umferðir eru eftir.