Innlent

Telur réttara að veitinga­húsum verði gert að loka og veita þeim styrki

Sylvía Hall skrifar
Hrefna Sverrisdóttir.
Hrefna Sverrisdóttir. Vísir

Hrefna Sverrisdóttir, veitingakona á ROK, segir nýjar samkomutakmarkanir koma til með að hafa gífurleg áhrif á rekstur veitingahúsa um allt land. Til þessa hafi veitingahúsum verið leyft að starfa með miklum takmörkunum, en að hennar mati væri réttast að loka og gera þá rekstraraðilum kleift að sækja um lokunarstyrki.

„Við höfum verið að starfa undir mjög hörðum sóttvarnareglum, fjöldatakmörkunum, nálægðartakmörkunum og opnunartakmörkunum undanfarnar vikur. Þetta er í rauninni svolítið punkturinn yfir i-ið og er í rauninni jafngildi lokunar,“ sagði Hrefna í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Hún segir veitingamenn sammála um að það sé nauðsynlegt að ná tökum á faraldrinum fyrir desembermánuð. Hann sé gríðarlega mikilvægur og yfirleitt stærsti mánuður ársins tekjulega séð í veitingarekstri.

„Það hefði verið hreinlegast finnst manni að leyfa veitingastöðum að loka og eiga þá rétt á einhverjum lokunarstyrkjum.“

Að mati Hrefnu skýtur það einnig skökku við að leyfa stöðunum að vera opnir en hlusta svo á yfirvöld mæla gegn því að fólk komi saman á slíkum stöðum. Það hafi tilfinnanlega áhrif á starfsemina, enda hafi ekki alltaf verið fullsetið þó staðirnir væru opnir.

„Það er annars vegar verið að reyna að halda starfseminni opinni með þessum gríðarlegu takmörkunum og á sama tíma segir sóttvarnalæknir og fleiri að það eigi alls ekki að mæta á staðinn. Viðskiptavinirnir eru hræddir við að mæta þó svo að það sé opið. Við upplifum núna, margir staðir, að þó það væru tuttugu manns sem mættu koma þá eru ekki einu sinni tuttugu manns sem mæta.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×