Fótbolti

Lewandowski getur slegið Ronaldo við í kvöld

Sindri Sverrisson skrifar
Markavélin Robert Lewandowski freistar þess að skora gegn Atlético Madrid í kvöld.
Markavélin Robert Lewandowski freistar þess að skora gegn Atlético Madrid í kvöld. Getty/Boris Streubel

Robert Lewandowski á möguleika á að slá eitt af metum Cristianos Ronaldo í kvöld þegar Bayern München tekur á móti Atlético Madrid.

Lewandowski er reyndar búinn að jafna met Portúgalans með því að skora í níu leikjum í röð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. Það gerði Ronaldo á árunum 2012 til 2014. Lewandowski getur svo skoraði í tíunda leiknum í röð en þarf þá að finna leiðina að marki Atlético sem er oft vandrötuð.

Bayern varð á síðustu leiktíð fyrsta liðið í sögunni til að vinna alla sína leiki í Meistaradeildinni. Vegna kórónuveirufaraldursins voru leikirnir þó ekki nema 11, en það er samt lengsta runa sigurleikja hjá liði í Meistaradeildinni.

Lewandowski varð markakóngur Meistaradeildarinnar á síðustu leiktíð með 15 mörk.

Atlético hefur aðeins unnið tvo af síðustu tíu útileikjum sínum í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Luis Suárez gæti bætt úr því en hann hefur skorað fimm mörk í síðustu fimm byrjunarliðsleikjum sínum í keppninni.

Leikur Bayern og Atlético er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport kl. 19 í kvöld. Leikir Real Madrid og Shaktar Donetsk, Ajax og Liverpool, og Manchester City og Porto eru einnig í beinni útsendingu. Á Stöð 2 Sport 2 er svo Meistaradeildarmessan þar sem mörkin í öllum leikjum kvöldsins eru sýnd þegar þau eru skoruð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×