Fótbolti

Tuchel segir United hafa fengið heimsklassa fram­herja

Anton Ingi Leifsson skrifar
Cavani og Tuchel eftir leik hjá PSG á síðustu leiktíð.
Cavani og Tuchel eftir leik hjá PSG á síðustu leiktíð. VI Images/Getty Images

Thomas Tuchel, þjálfari PSG, hefur þjálfað Edinson Cavani en nú er hann á mála hjá mótherjum PSG annað kvöld er PSG og Manchester United mætast í fyrstu umferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Cavani yfirgaf frönsku meistaranna í sumar og eftir að hafa verið án félags í smá tíma ákvað Manchester United að semja við hann á lokadegi félagaskiptagluggans.

„United hefur fengið frábæran persónuleika. Hann er kurteis og næstum of almennilegur. Hann leggur hart að sér og er ákafur á öllum æfingum. Þú getur alltaf treyst á hann,“ sagði Tuchel í samtali við Sky Sports.

„Hann lifir á að skora mörk. Þegar hann skorar og fær sjálfstraust þá er hann einn besti framherji í heiminum. Vonandi byrjar hann á miðvikudaginn að stinga sokk upp í aðra en á morgun má hann gjarnan bíða með það,“ sagði Tuchel léttur.

Cavani er þó ekki í leikmannahópi United fyrir leikinn annað kvöld og mun Tuchel því sleppa við að mæta sínum fyrrum lærisvein.

Man. United og PSG mætast í Frakklandi annað kvöld en Meistaradeildinni verður gerð góð skil á Stöð 2 Sport annað kvöld. Upphitun hefst 18.30 og allt verður gert upp að leikjunum loknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×