Birkir Már Sævarsson hefur verið að raða inn mörkum með Valsmönnum að undanförnu og hann var áfram á skotskónum með íslenska landsliðinu á móti Belgíu í kvöld.
Birkir Már Sævarsson kom aftur inn í landsliðið fyrir þennan glugga eftir nokkurt hlé en fékk ekki tækifæri fyrr en í kvöld. Birkir Már hefur spilað mjög vel með toppliði Valsmanna í Pepsi Max deildinni og hann er í frábæru formi.
Bakvörðurinn var ekki lengi að nýta sér þetta tækifæri með íslenska landsliðinu því hann jafnaði metin í 1-1 á 17. mínútu eftir að Romelu Lukaku hafði komið Belgíu yfir strax á tíundu mínútu leiksins.
„Vindurinn að gefa manni smá gæsahúð,“ sagði Guðmundur Benediktsson í lýsingunni á Stöð 2 og Stöð 2 Sport.
Birkir Már Sævarsson átti frábært hlaup og fékk mjög góða sendingu frá Rúnari Má Sigurjónssyn bak við miðvörð Belga og skoraði á laglegan hátt framhjá markverði Belgana.
Það má sjá markið hér fyrir neðan.