Leikmenn íslenska og sænska landsliðsins í fótbolta hugðust krjúpa á hné fyrir stórleikinn á Laugardalsvelli í kvöld, til stuðnings réttindabaráttu svartra, en hafa hætt við. Þess í stað verður einnar mínútu þögn.
Sænska liðið kraup fyrir leik sinn við Ungverjaland síðasta fimmtudag, og hlaut einhverja gagnrýni fyrir, en Caroline Seger sagði í samtali við Vísi í hádeginu í gær að leikurinn yrði endurtekinn á Laugardalsvelli í dag. Sænska liðið væri lið sem berðist fyrir mannréttindum.
Og íslenska liðið ætlaði einnig að krjúpa: „Við auðvitað tökum þátt í því ef að það er gert og styðjum þessa baráttu. Engin spurning,“ sagði Glódís Perla Viggósdóttir, sem raunar er samherji Seger hjá Rosengård í Svíþjóð.
En skömmu eftir að Seger ræddi við Vísi bárust fréttir af því að Lars-Åke Lagrell, sem var formaður sænska knattspyrnusambandsins í yfir 20 ár, væri látinn, 80 ára að aldri.
Till minne av Lars-Åke Lagrell Svenska Fotbollförbundets meste och starkaste förbundsordförandehttps://t.co/ZLe126Eoz5 pic.twitter.com/aw8kcT2e0z
— Svensk Fotboll (@svenskfotboll) September 21, 2020
Lagrell er talinn eiga stóran þátt í sterkri stöðu knattspyrnu kvenna í Svíþjóð og nú hefur sænska knattspyrnusambandið tilkynnt að í stað þess að leikmenn krjúpi fyrir leikinn í kvöld, verði einnar mínútu þögn til minningar um Lagrell. Bæði lið munu heiðra minningu hans.
Leikur Íslands og Svíþjóðar hefst kl. 18 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.