Yoshihide Suga er nánast búinn að tryggja sér embætti forsætisráðherra Japans, eftir að Shinzo Abe, fráfarandi forsætisráðherra, tilkynnti um afsögn sína vegna heilsubrests í síðasta mánuði. Hinn 71 árs gamli Suga hefur tryggt sér formennsku Frjálslynda flokksins og þar með ráðherraembættið. Suga bar sigur úr býtum gegn varnarmálaráðherranum Shigeru Ishiba.
Hann mun að öllum líkindum sitja út kjörtímabil Abe, sem klárast í september á næsta ári, samkvæmt The Japan Times. Eftir að formannsvalinu lýkur formlega í dag verður haldin atkvæðagreiðsla á þinginu á miðvikudaginn, þar sem fastlega er búist við því að Suga verði valinn forsætisráðherra.
Suga hefur sagt að hann muni framfylgja helstu stefnumálum Abe og þá sérstaklega varðandi efnahag og utanríkisstefnu Japan.
Abe varð í síðasta mánuði þaulsetnasti forsætisráðherrann í sögu Japans. Hann hefur gegnt embættinu frá árinu 2012, en auk þess gegndi hann embættinu á árunum 2006 til 2007.
Suga er alls ekki nýgræðingur í pólitík og samkvæmt BBC hefur hann orð á sér fyrir skilvirkni og að vera praktískur.