Veiði

Góð saga af skrifstofuveiðum

Karl Lúðvíksson skrifar
Þór Sigfússon ásamt syni sínum við veiðar.
Þór Sigfússon ásamt syni sínum við veiðar. Mynd: Þór Sigfússon
Nú þegar veiðitímabilið er loksins hafið aftur langar okkur til að hvetja ykkur lesendur Veiðivísis til að vera dugleg að senda okkur skemmtilegar veiðifréttir.

Það má líka senda okkur skemmtilegar veiðisögur og hér fyrir neðan er ein sem við fengum senda frá Þór Sigfússyni sem við þökkum kærlega fyrir.

"Ég skal fúslega viðurkenna að ég er skrifstofuveiðimaður. Nú eru ugglaust margir lesendur sem geta misskilið hvað í því felst og lái ég það engum. Í sem stystu máli er ég með vinnustaðaveiðibakteríu sem lýsir sér í því að á köldum vetrardögum sit ég oft á fundum í vinnunni og er gersamlega búinn að missa af þræði fundanna. Þess í stað er ég að ímynda mér að ég sé að setja í eina laglega hrygnu.  Bara svo það sé sagt þá er þetta ekki orðaleikur. Ég er semsagt í huganum búinn að ganga niður að Þrepabóli í Selá. Svo máta ég hylinn, veð rólega út í hann, stíg aðeins ofar á móti straumnum og met hvort ég geti kastað í lygnuna við bakkann hinum megin. Svo fer ég enn ofar í strauminn og næ síðan að kasta í huganum mjúkri línunni í fallegum sveig þannig að hún nær að bakkanum og flýtur svo í rólegheitum yfir þvera lygnuna. Það fer mikil hugsun í flugurnar og hvernig ég hyggst raða þeim af kunnáttu í baráttunni við fiskinn.

Í huganum byrja ég á svartri örflugu (ég hef reyndar aldrei veitt neitt á slíka flugu en það er smart að hugsa smátt segja þeir bestu). Svo prófa ég hitch túbu sem ég er með eitthvað fetish fyrir. Ef svo ólíklega vill til að ekkert gerist þá býður Collie dog númer 14 eftir tækifærinu að sendast fyrir mig út í strauminn og sækja fisk. Í þessu draumalandi fer flugan hjá mér lengst út að bakkanum hinum megin og flýtur á speglinum. Í fyrsta kasti ræðst hrygnan á fluguna en nær henni ekki. Ég kasta aftur og ekki líður á löngu en aftur var rifið í og nú tekst það. Virðing veiðimanns og fisks er gagnkvæm og ósærðum laxinum er sleppt í ána.

Þessar veiðihugsanir byrja að ágerast hjá mér strax á haustin og reyndar núna einnig í sóttkví. Líklega er þetta svarið við vetrarkvíða eins og Björn Blöndal veiðimaður og uppáhalds veiðirithöfundur minn lýsti þessum tíma þegar veiðin er búin. Tíminn er útrunninn! Þú færð annan séns – en ekki fyrr en að tæpu ári liðnu. Um leið og síðustu veiðiferð sumarsins lýkur og ég skelli flugunum í boxin og stöngunum á sinn stað, byrja ég að hugsa hvað ég hefði getað gert betur. Átti ég að byrja ofar í Hamarshyl, átti að eyða meiri tíma í Fossinum og vaða lengra útí eða þyngja línuna í Leifsstaðahyl? Ég spyr sjálfan mig líka hvort einhvern tíma muni ég veiða ég mest í veiðihópnum? Kannski mundi vetrarkvíðinn minnka ef ég færi heim sem veiðikóngur árinnar eins og pabbi var í bjargveiðinni í Eyjum.

Þegar líður á veturinn fara dagdraumarnir að verða sterkari. Þegar ég sit fastur á fundum, er ég stundum kominn í draumaveiðiferðina í anda Björns Blöndals. Björn tjaldaði stundum við árnar og vaknaði svo við fuglasöng og árniðinn. Veiddi svo með einhverjum breskum glæsimennum en var samt sjálfur alltaf einhvern veginn og alveg náttúrulega flottastur. Svo samdi hann einhverja ómótstæðilega veiðisögu á leiðinni heim úr veiðinni. Þetta skyldi ég gera næsta sumar. Það gerist aldrei. En alveg sama hvernig liðið sumar gekk, alltaf hlakka ég til nýs veiðisumars og nýrra tækifæra sem einhvern veginn koma alltaf ár eftir ár. Tilhlökkunin er mikil og allt undirbúið af kostgæfni. Þegar í ána er komið um sumarið verður samt að segja að sá glæsileiki og yfirvegun í veiðinni sem ég var búinn að fara svo oft yfir í huganum komu ekki með mér í veiðiferðina.

Ég hleyp við fót niður brekkuna að Þrepabóli og í stað þess að anda aðeins að mér og hugsa hvaða stefnu ég ætli mér að taka, grípur mig veiðiofsi. Tíminn er alltaf að hlaupa frá mér enda miklar skiptingar á veiðisvæðum. Þessi asi er því ekki bara mér sjálfum að kenna því ég man vel þegar við gátum gengið niður Selá og veitt á öllum stöðunum á efsta svæðinu. Nú var þetta stöðugt kapphlaup við klukkuna - og gott að geta kennt henni um. Ég er varla búinn að kasta mæðinni eftir hlaupið niður að ánni þegar ég veð út í. Örflugan gleymdist í veiðihúsinu og ég skellti bara á lítilli snældu til að ná alveg út í lygnuna. Svo böðlast línan út, skvettir frá sér þegar hún fellur á flötinn, hrygnan stórhneykslast og syndir burt. Ég þarf enn einu sinni að viðurkenna að ég er af bjargveiðimannakyni úr Vestmannaeyjum sem elskar veiði en verð aldrei toppveiðimaður - nema á skrifstofunni!"






×