Körfubolti

Sjá fjórði yngsti í sögunni til að skora 50 stig í NBA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Trae Young, til hægri, er að spila frábærlega í NBA-deildinni í vetur og að verða ein af súperstjörnum deildarinnar.
Trae Young, til hægri, er að spila frábærlega í NBA-deildinni í vetur og að verða ein af súperstjörnum deildarinnar. Getty/Todd Kirkland

Hinn ungi og frábæri Trae Young átti sinn besta leik á NBA-ferlinum í nótt þegar hann fór fyrir liði sínu Atlanta Hawks í frekar óvæntum sigri á Miami Heat.  

Trae Young var með 50 stig og 8 stoðsendingar í 129-124 sigri Atlanta Hawks liðsins.

Trae Young þurfti aðeins 25 skot til að skora þessi 50 stig sín en hann hitti úr 8 af 15 þriggja stiga skotum sínum og setti niður 18 af 19 vítaskotum.



Trae Young er sá fjórði yngsti til að skora 50 stig í leik í NBA-deildinni en aðeins LeBron James (3 sinnum), Devin Booker og Brandon Jennings voru yngri en hann.

Trae Young varð jafnframt fyrsti leikmaðurinn undir 22 ára til að brjóta fimmtíu stiga múrinn síðan að Devin Booker skoraði 70 stig í mars fyrir þremur árum.



Trae Young var sérstaklega öflugur í lokaleikhlutanum þegar Atlanta Hawks liðið var að landa sigrinum.

Hann skoraði þá 17 af 39 stigum sínum liðs á sama tíma og liðið vann upp sjö stiga forystu Miami Heat og tryggði sér sigurinn.

Hinn 21 árs gamli Trae Young hefur nú skorað 40 stig eða meira í sex leikjum síðan í byrjun janúar.



Það er engin vafi á því að Trae Young er orðinn að stórstjörnu í NBA-deildinni en hann er eins og er í 2. sæti í bæði stigaskorun og stoðsendingum.

Trae Young er með 29,7 stig og 9,2 stoðsendingar að meðaltali í leik en á sínu fyrsta tímabili í fyrra þá var hann með 19,1 stig og 8,1 stoðsendingu að meðaltali í leik.

Trae Young er því að skora meira en tíu stigum meira að meðaltali í leik á þessu tímabili en á nýliðatímabilinu sínu. Hann hefur líka hækkað þriggja stiga skotnýtingu sína úr 32 prósentum upp í 37 prósent.

Hér fyrir neðan má sjá svipmyndir frá þessari mögnuðu frammistöðu Trae Young á móti Miami Heat í nótt.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×