Martin Hermannsson átti enn einn stórleikinn í Euroleague deildinni í gærkvöldi þegar hann var með 19 stig, 8 stoðsendingar og 4 þrista í leik á móti efsta liðinu.
Martin hefur heldur betur raðað niður þristunum að undanförnu en í gærkvöldi bætti hann met sitt og Jóns Arnór Stefánssonar og varð fyrsti Íslendingurinn til að skora fjórar þriggja stiga körfur í einum leik í bestu deild í Evrópu.
Martin þurfti líka bara fimm tilraunir til að skora þessa fjóra þrista og bauð því upp á 80 prósent þriggja stiga skotnýtingu í leiknum í Berlín í gær.
Martin spilaði líka aðeins rétt rúmar 24 mínútur í leiknum sem gera 19 stig og 8 stoðsendingar hans enn merkilegri fyrir vikið.
Martin hefur náð að fóta sig vel í Euroleague deildinni og hefur bætt sig mikið á þessu tímabili. Það sést ekki síst á skotum hans fyrir utan þriggja stiga línuna.
Martin hitti „bara“ 22 prósent þriggja stiga skota sinna fram að jólum en hann setti niður 8 af 37 þriggja stiga skotum í fyrstu fjórtán leikjum sínum í Euroleague.
Martin hitti úr 2 af 4 þriggja stiga skotum sínum í leik á móti Kirolbet á öðrum degi jóla og var með átján stig í þeim leik.
Þessi leikur kveikti í Martin en hann hefur nýtt 49 prósent þriggja stiga skota sinna eftir jól og er á þeim tíma með 20 þrista í 11 leikjum eða næstum því tvo að meðaltali í leik.
Í síðustu þremur leikjum hefur Martin síðan sett niður 8 af 10 þriggja stiga skotum sínum sem er ótrúleg 80 prósent nýting en tveir af mótherjunum þremur voru tvö efstu liðin í Euroleague eða Anadolu Efes frá Istanbul og Real Madrid.
Leikurinn í gær var áttundi leikurinn hjá Martin Hermannssyni í Euroleague deildinni á þessu tímabili þar sem hann býður upp á 50 prósent eða betri þriggja stiga nýtingu.
Leikir Martin Hermannssonar í Eurolegue 2019-20 með 50% þriggja stiga nýtingu:
75% á móti Rauðu Stjörnunni 19. nóvember (3 af 4)
50% á móti Fenerbahce 6. desember (1 af 2)
50% á móti Kirolbet 26. desember (2 af 4)
50% á móti Rauðu Stjörnunni 17. janúar (3 af 6)
50% á móti Fenerbahce 30. janúar (2 af 4)
100% á móti Real Madrid 6. febrúar (2 af 2)
67% á móti Zenit St. Pétursborg 20. febrúar (2 af 3)
80% á móti Anadolu Efes 27. febrúar (4 af 5)
