Fótbolti

Barcelona upp að hlið Real Madrid á toppi deildarinnar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Griezmann fagnar marki sínu í dag.
Griezmann fagnar marki sínu í dag. Vísir/Getty

Barcelona vann nú rétt í þessu 2-1 heimasigur á Getafe í spænsku úrvalsdeildinni en gestirnir eru spútnik lið spænsku úrvalsdeildarinnar það sem af er leiktíð. Sigurinn þýðir að Barcelona er komið upp að hlið Real Madrid á toppi spænsku úrvalsdeildarinnar en Real á leik annað kvöld og getur þá náð þriggja stiga forskoti á ný.

Á 22. mínútu leiksins meiddist spænski vinstri bakvörðurinn Jordi Alba og í hans stað kom Junior Firpo inn af varamannabekknum. Sá átti eftir að koma við sögu áður en fyrri hálfleikurinn var úti.

Rúmum tíu mínútum eftir að Alba meiddist komust Börsungar yfir. Þar var að verki Antoine Griezmann með snyrtilegri vippu eftir góða sendingu Lionel Messi inn fyrir vörn gestanna. Það var svo á 39. mínútu sem Börsungar spiluðu sig upp vinstri vænginn og átti Firpo góða sendingu þvert fyrir markið þar sem Sergio Roberto, hægri bakvörður heimamanna, skoraði með vinstri fótar skoti sem lak í netið.

Staðan 2-0 í hálfleik og heimamenn í í fínum málum. Það dró af Börsungum í síðari hálfleik en Angel Rodriguez minnkaði muninn fyrir gestina á 66. mínútu með frábæru skoti eftir sendingu Jamie Mata utan af hægri vængnum. Getafe var svo hársbreidd frá því jafna metin undir lok leiks en Marc-André ter Stegen varði meistaralega í markinu.

Leiknum lauk með 2-1 sigri heimamanna, þeir eru þó enn í 2. sæti spænsku úrvalsdeildarinnar en nú með 52 stig líkt og Real Madrid sem á leik til góða. Getafe er, nokkuð óvænt fyrir þá sem fylgjast ekki vel með deildinni, í 3. sætinu með 42 stig.

 








Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×