Erlent

Skelfilegur eldsvoði í Ástralíu

Samúel Karl Ólason skrifar
Vegfarandi reyndi að koma fjölskyldunni til hjálpar en sá brenndist á andliti og líkama við að reyna að komast að bílnum.
Vegfarandi reyndi að koma fjölskyldunni til hjálpar en sá brenndist á andliti og líkama við að reyna að komast að bílnum. EPA/DAN PELED

Þrjú börn undir tíu ára aldri og faðir þeirra eru dáin eftir eldsvoða í bíl fjölskyldunnar í Ástralíu í morgun. Útlit er fyrir að faðirinn hafi kveikt eldinn í bílnum. Börnin þrjú voru sex ára, fjögurra ára og þriggja ára.

Eldurinn kom upp í bíl Rowan og Hönnuh Baxter. Vitni segja Hönnuh hafa hlaupið logandi út úr bílnum og kallað: „Hann hellti bensíni á mig,“ samkvæmt ABC News í Ástralíu. Hún hefur verið færð á sjúkrahús og er sögð alvarlega brunnin.

Lögreglan hefur þó ekki staðfest að eldsneyti hafi verið notað. Lögreglan segir útlit fyrir að Hannah hafi verið að keyra bílinn og Rowan hafi setið í farþegasætinu. Börnin þrjú sátu aftur í. Enn sé of snemmt að segja til um hvort Rowan hafi kveikt eldinn vísvitandi eða hvort að um slys hafi verið að ræða.

„Þetta er hrottalegur vettvangur,“ sagði rannsóknarlögregluþjónninn Mark Thompson við blaðamenn.

Vegfarandi reyndi að koma fjölskyldunni til hjálpar en sá brenndist á andliti og líkama við að reyna að komast að bílnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×