Vanessa Bryant, ekkja Kobe Bryant, sendi í nótt frá sér sína fyrstu tilkynningu eftir að hún missti eiginmann sinn og dóttur í þyrluslysi á sunnudaginn. Hún þakkaði þar milljónum aðdáenda sem hafa sýnt fjölskyldunni stuðning á þessum skelfilega tíma síðan slysið varð.
„Það eru ekki til orð til að lýsa sársauka okkar núna,“ skrifaði Vanessa Bryant á Instagram fyrir neðan mynd af allri fjölskyldunni saman.
„Við stelpurnar viljum þakka þeim milljónum manna sem hafa sýnt okkur stuðning og ást. Þakkir fyrir allar bænirnar því við þurftum svo sannarlega á þeim að halda. Við erum algjörlega niðurbrotin yfir því að hafa skyndilega misst ástríkan eiginmann minn Kobe -yndislegan föður barnanna okkar og mína fallegu og blíðu Giannu, sem var ástrík, hugulsöm og dásamleg systir þeirra Natalíu, Bianku og Capri,“ skrifaði Vanessa.
Hún sagðist einnig finna til með þeim sem misstu ástvini í slysinu. Alls fórust níu í þyrlulslysinu í Kaliforníu á sunnudaginn.
Jimmy Kimmel rifjaði upp heimsóknir Kobe Bryant í þáttinn sinn á dögunum.
„Ég hugga mig við það að bæði Kobe og Gigi vissu hve margir elskuðu þau. Við vorum svo ótrúlega heppin að hafa þau í okkar lífi. Ég vildi óska að þau hefði verið með okkur til eilífðar. Þau voru tekin frá okkur alltof fljótt.“
Kobe og Vanessa Bryant giftu sig árið 2001 og eignuðust fjórar dætur saman. Sú elsta er Natalia sem er orðin 17 ára en sú yngsta, Capri, er bara sjö mánaða. Þau eiga einnig hina þriggja ára gömlu Bianku.
„Ég veit ekki hvernig lífið okkar verður núna því það er ómögulegt að ímynda sér lífið án þeirra. Við vöknum samt á hverjum degi og reynum að halda áfram því Kobe og litla stelpan okkar Gigi, skína og sýna okkur leiðina. Ást okkar á þeim er endalaus og það verður aldrei hægt að ná utan um hana. Ég vildi bara óska þess að ég gæti faðmað þau, kysst þau og blessað. Að hafa þau með okkur til eilífðar,“ skrifaði Vanessa Bryant.
Það má finna alla færslu hennar hér fyrir neðan.
View this post on InstagramA post shared by Vanessa Bryant (@vanessabryant) on Jan 29, 2020 at 4:59pm PST