Körfubolti

Súperman ætlar að snúa aftur í troðslukeppni Stjörnuhelgar NBA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dwight Howard vann troðslukeppnina fyrir tólf árum síðan og hér sést hann í einni tilraun sinni þá.
Dwight Howard vann troðslukeppnina fyrir tólf árum síðan og hér sést hann í einni tilraun sinni þá. Getty/Greg Nelson

Það muna örugglega margir eftir troðslukeppni NBA-deildarinnar árið 2008 en nú ætlar sigurvegarinn að snúa aftur tólf árum síðar.

Dwight Howard fékk tækifæri sem liðsfélagi LeBron James í vetur og líkar lífið vel sem varamiðherji Los Angeles Lakers liðsins.

Dwight Howard er nú orðinn 34 ára gamall og hefur flakkað mikið í NBA-deildinni undanfarin ár auk þess að vera glíma mikið við meiðsli. Hann er heill í dag og er að skila mikilvægum mínútum hjá efsta liði Vesturdeildarinnar.



Shams Charania hjá The Athletic sagði fyrstur frá því að Dwight Howard ætli að taka aftur þátt í troðslukeppni Stjörnuleiks NBA-deildarinnar í ár.

Dwight Howard vann troðslukeppnina með miklum tilþrifum árið 2008 en hann var þá á hápunkti ferils síns með Orlando Magic. Hann vakti þá athygli þegar hann mætti með súperman skikkjuna og flaug síðan eins og súperman í keppninni sjálfri.

Howard var valinn varnarmaður ársins þrjú ár í röð og komst í lokaúrslitin um NBA-titilinn árið 2009.

Dwight Howard tók þátt í troðslukeppninni árin 2007 til 2009 en hefur ekki tekið þátt síðan.

Forráðamenn Los Angeles Lakers hafa vissulega smá áhyggjur af þessum fyrirætlunum miðherja síns og hann mun því fara að öllu með gát. Hann er með 7,1 stig, 6,8 fráköst og 1,4 varið skot á 19,5 mínútum af bekknum með Lakers í vetur.

Troðslukeppnin fer fram 15. febrúar eða kvöldið áður en sjálfur leikurinn fer fram. Stjörnuhelgin verður að þessu sinni haldin í Chicago.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×