Í nýrri stiklu fyrir Netflix-þættina Down to Earth with Zac Efron má sjá Íslandi bregða fyrir. Aðalstjarna þessara heimildaþátta er, eins og heitið gefur til kynna, bandaríski leikarinn Zac Efron. Í þáttunum ferðast Efron um heiminn ásamt heilsusérfræðingnum Darien Ollen í leit að heilbrigðum og sjálfbærum leiðum til að lifa lífinu.
Þættirnir verða frumsýndir á Netflix þann 10. júlí. Efron leitar svara við vandamálum á borð við loftslagsbreytingar og skort á sjálfbærni, og er í mörg horn að líta. Hann ferðast vítt og breitt um heiminn og skoðar mismunandi menningarheima í leit að lausnum.
Meðal áfangastaða þeirra Efron og Ollen eru Frakkland, Púertó Ríkó og Perú. Glöggir áhorfendur stiklunnar sjá þó að Efron ferðast einnig til Íslands, og virðist orkuframleiðsla hér á landi vekja sérstaklega áhuga hans.
Í stiklunni sést Efron meðal annars klæddur neongulu öryggisvesti og hjálmi merktu Landsvirkjun. Hér að neðan má sjá stikluna, en þegar þetta er skrifað hefur stiklan fengið meira en milljón áhorf.