Juventus vann 1-3 sigur á Genoa í ítölsku úrvalsdeildinni í gær. Paulo Dybala, Cristiano Ronaldo og Douglas Costa skoruðu mörkin sem voru öll í glæsilegri kantinum.
Talsverð pressa var á Juventus fyrir leikinn í gær því fyrr um kvöldið minnkaði Lazio forskot liðsins á toppi deildarinnar niður í eitt stig með 1-2 sigri á Torino.
Leikmönnum Juventus tókst ekki að koma boltanum framhjá Mattia Perin, markverði Genoa, í fyrri hálfleiknum í gær. En á 50. mínútu braut Dybala ísinn.
Argentínumaðurinn dansaði þá framhjá varnarmönnum Genoa og skaut boltanum í fjærhornið. Perrin var með hönd á bolta en það dugði ekki til.
Sex mínútum síðar kom Ronaldo Juventus tveimur mörkum yfir með frábæru skoti af löngu færi. Þetta var 24. mark Portúgalans í 25 leikjum í ítölsku úrvalsdeildinni á tímabilinu. Aðeins Ciro Immobile, framherji Lazio, hefur skorað fleiri mörk (29).
Douglas Costa kom inn á sem varamaður í liði Juventus á 66. mínútu. Sjö mínútum síðar mundaði hann vinstri fótinn fyrir utan vítateig og sneri boltann upp í fjærhornið.
Andrea Pinamonti minnkaði muninn í 1-3 á 76. mínútu en nær komst Genoa ekki. Liðið er í 17. sæti deildarinnar með 29 stig, einu stigi frá fallsæti.
Juventus er með fjögurra stiga forskot á Lazio á toppnum. Bæði lið eiga níu leiki eftir. Þau mætast innbyrðis á Allianz vellinum í Tórínó 20. júlí.
Mörkin úr leik Genoa og Juventus má sjá hér fyrir neðan.