Dánartíðni á Spáni margfaldaðist í samanburði við venjulegt ár þegar kórónuveirufaraldurinn var í hámarki í apríl samkvæmt nýjum opinberum gögnum. Þau benda til þess að enn fleiri hafi látið lífið af völdum veirunnar en opinberar tölur segja til um.
Alls létust 225.930 manns á Spáni á fyrstu 21 viku ársins samkvæmt tölum spænsku hagstofunnar. Það var tæplega 44.000 fleiri en á sama tímabili í fyrra. Þegar kórónuveirufaraldurinn, sem hefur dregið 27.127 manns til dauða til þessa samkvæmt opinberum tölum, var í hámarki í byrjun apríl jókst dánartíðnin um 155% frá árinu á undan.
Sérfræðingar telja að viðbótarmannskaðinn skýrist af tilfellum kórónuveiru sem erfitt sé að greina vegna annarra undirliggjandi sjúkdóma fólks og fólki sem lést þegar það veigraði sér við að leita aðstoðar á sjúkrahúsi vegna annarra sjúkdóma af ótta við að smitast af veirunni, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Faraldurinn er í mikilli rénun á Spáni. Tölur hagstofunnar virðast staðfesta það þar sem dánartíðni í vikunni 18.-24. maí reyndist sambærileg við sama tímabil í fyrra.