Jón Axel Guðmundsson er skráður í nýliðaval NBA-deildarinnar í sumar og nokkur lið hafa sýnt íslenska bakverðinum áhuga.
Fimm lið hafa þegar rætt við Jón Axel og hann á eftir að ræða við önnur þrjú lið í NBA-deildinni.
„Ég hef talað við fimm NBA-lið og á næstu dögum er verið að koma á fundum með fleiri NBA-liðum. Ég er búinn að tala við Charlotte Hornets, Cleveland Cavaliers, Utah Jazz, Phoenix Suns og Milwaukee Bucks," sagði Jón Axel Guðmundsson í samtali við Kristján Jónsson á Morgunblaðinu.
Jón Axel Guðmundsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, hefur að undanförnu fundað með fimm NBA-liðum sem hafa sýnt honum áhuga og mun ræða við fulltrúa frá fleiri liðum á næstunni. https://t.co/cHBOUGA61u pic.twitter.com/TMP2CefNVG
— mbl.is SPORT (@mblsport) May 28, 2020
„Ég á eftir að tala við Miami Heat, Sacramento Kings, Golden State Warriors og væntanlega fleiri lið. Ég reikna með því að funda með þessum liðum í næstu viku og í næsta mánuði,“ sagði Jón Axel enn fremur í viðtalinu.
Með Golden State Warriors spilar einmitt Steph Curry sem var í Davidson háskólanum alveg eins og Jón Axel. Jón Axel hitti Curry meðal annars þegar hann kom að fylgjast með sínu gamla félagi spila.
NBA-deildin hefur verið í frosti siðan í mars en menn ætla sér að klára tímabilið í sumar og þá líklegast bara með úrslitakeppni. Nýliðavalið á að fara fram í júlí en það gæti breyst.
„Ef tímabilið verður klárað í NBA þá er nýliðavalið kannski ekki fyrr en í september,“ sagði Jón Axel í viðtalinu en sem má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.